Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir ekki hægt að fullyrða um endalok eldgossins út frá upplýsingum um hitaútstreymi, þær gefi þó vissulega vísbendingar um stöðuna.
Þetta segir Magnús Tumi í samtali við mbl.is spurður hvernig hann meti þær upplýsingar sem rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands hefur sett fram með gögnum frá gervitunglum.
Myndir frá gervitunglunum sýna að heilt yfir hafi dregið úr varmaútgeislun frá eldgosinu. Metur einingin það sem svo að það bendi til þess að það dragi nær endalokum eldgossins.
„Það virðist vera sem það sé jafnvægi í þessi núna, en hvort þetta hættir, það eru allskonar getgátur í gangi um það,“ segir Magnús Tumi og bætir við nú sé einungis að bíða og sjá hvernig fram vindur.
Að sögn Magnúsar Tuma virðist jafnvægi komið á gosið í ljósi þess að landris á svæðinu virðist hafa stöðvast, það sé til marks um að jafnvægi sé milli aðstreymis að neðan og kvikustreymis upp í gígana. Þannig sé að koma jafn mikil kvika inn í kvikuhólfið eins og er að streyma út úr hólfinu.
„Það er ekki hægt er að fullyrða út frá þessu, og ekki heldur óróanum, að það dragi hratt úr gosinu. En auðvitað gæti gosið hætt fljótlega og minna hitaútstreymi bendir til lækkandi hraunflæðis,“ segir Magnús spurður hversu lengi umrætt jafnvægisástand milli aðstreymis og streymis í gígana getur varað.
„Reynslan sýnir okkur að náttúran kemur okkur oft á óvörum.“
Spurður hvað það þýði fyrir Sundhnúkagígaröðina að gosið sé búið að vara þetta lengi samanborið við tímalengd eldgosanna á undan á sömu gígaröð svarar Magnús Tumi að atburðirnir á Sundhnúkagígaröð séu öðruvísi en í Fagradalsfjalli.
„Þarna safnaðist kvika undir Svartsengi á kannski fimm kílómetra dýpi og það byggðist upp þrýstingur, svo brast,“ segir Magnús Tumi og útskýrir að það hafi fyrst gerst þann 10. nóvember þegar langstærsti atburðurinn fór að stað og mikil gliðnun varð í Grindavík og skemmdir.
„En kvikan kom ekki upp því það var nóg pláss fyrir hana niðri,“ segir Magnús og bætir við:
„Það var miklu meira sem fór þar inn heldur en samanlagt það sem kom upp í öllum hinum gosum sem hafa komið á eftir.“
Var þá bara ekki lengur pláss?
„Það var nóg pláss þá. Síðan koma seinni eldgosin, eins og í desember, og þá byggist upp þrýstingur þarna. Svo kemur þetta upp með miklum krafti eins og flest gos gera,“ segir Magnús Tumi og nefnir sem dæmi kraftinn í upphafi Heklugoss.
„Það byrjar oft langmesti krafturinn fyrst, síðan dregur úr þrýsting og þá dregur úr flæðinu og það gerðist mjög hratt. Síðan lokaðist fyrir og þetta endurtók sig í janúar,“ segir Magnús Tumi og útskýrir að gosið við Grindavík í janúar hafi verið minnsta gosið. Síðan var það gosið í febrúar sem var mjög öflugt með miklu rennsli en það dró hratt úr því, segir hann.
Munurinn á þessum fyrri þremur eldgosum á Sundhnúkagígaröðinni og því sem nú er, er því sá að í staðin fyrir að það lokist fyrir kvikuflæði upp í gígana þá flæðir beint í gegn, útskýrir Magnús.
Segir þessi munur eitthvað til um endalok eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni að þessu sinni?
„Nei ég held að við getum ekki sagt fyrir um það enn þá. Það þarf að koma í ljós hvað verður.“
Í þessu samhengi minnir Magnús Tumi á að fyrsta landris á svæðinu hafi byrjað árið 2020. Að nokkrum vikum liðnum stöðvaðist landrisið en tók sig þó upp nokkrum sinnum áður en til tíðinda dró á síðasta ári, þegar kvikuhlaupið mikla varð þann 10. nóvember.
„Þetta var ekkert fyrsti atburðurinn,“ segir Magnús Tumi en bætir við að nú sé innstreymið þó búið að vera stöðugt í um fimm mánuði sem hann segir töluvert langan tíma.
„Ég held að við getum átt von á því að þegar upp er staðið þá verði ferlið miklu lengra en orðið er. Það má vel vera að kvikustreymi, eldgos og landris, hætti tímabundið í mánuði eða jafnvel ár. Það gæti líka haldið áfram samfellt í verulegan tíma. Það er ekkert útilokað að að það ferli sem verið hefur síðustu mánuði vari í eitt eða tvö ár, en það er ekkert víst í þessu. Það er bara mjög fjarri því að við vitum nokkuð um það,“ segir Magnús Tumi og bætir við:
„En miðað við fyrri atburði á þessum slóðum þá er alls ekki ólíklegt að það sé heil mikið eftir af atburðarásinni í Sundhnúkagígaröðinni. Því sögulega kemur meira en þetta.“