Íslendingar eftirbátar Eista

Eiríkur gagnrýnir metnaðarleysi Íslendinga.
Eiríkur gagnrýnir metnaðarleysi Íslendinga. Samsett mynd

Eiríkur Rögnvaldsson, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði, segir metnaðarleysi ríkja meðal eigenda og starfsfólks veitingahúsa og verslana hér á landi við að halda íslenskunni á lofti.

Eiríkur birti færslu í Facebook-hópnum Málspjallið í fyrradag þar sem hann greinir frá dugnaði Eista að halda fram þjóðtungunni. Bendir hann á að í Eistlandi, sem sé einnig eitt fámennasta málsamfélag í Evrópu, hugi eigendur og starfsfólk veitingahúsa og verslana vel að tungumálinu.

„Þótt eistneska málsamfélagið sé þrisvar sinnum fjölmennara en það íslenska er það samt eitt hið fámennasta í Evrópu. En það vefst ekkert fyrir eigendum og starfsfólki veitingahúsa og verslana í Tartu að hafa matseðla og skilti á bæði eistnesku og ensku - og eistneskuna á undan. Það er ekkert annað en metnaðarleysi að við skulum ekki hafa sama háttinn á - hafa íslensku alltaf á undan enskunni í stað þess að sleppa henni,“ skrifar Eiríkur.

Eiríkur birti myndir af skiltum í Eistlandi með færslu sinni …
Eiríkur birti myndir af skiltum í Eistlandi með færslu sinni í Facebook-hópnum Málspjallið. Samsett mynd/Eiríkur

Áberandi í miðbænum

Algengt er að enskan sé meira áberandi á auglýsingaskiltum og matseðlum í miðbæ Reykjavíkur og á helstu ferðamannastöðum landsins. Einnig eru dæmi þess að skilti og matseðlar séu eingöngu á ensku.

Algengt er að skilti í miðbænum séu eingöng á ensku.
Algengt er að skilti í miðbænum séu eingöng á ensku. Samsett mynd/mbl.is

Á síðustu misserum hefur farið fram mikil umræða um stöðu íslenskunnar.

Ýmis fyrirtæki hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki haft íslenskuna í fyrirrúmi. Mörg þeirra hafa gripið til aðgerða, en sum hafa ekki gert neitt. Staða íslenskunnar virðist ekki vera ofarlega í huga sumra fyrirtækja, mögulega vegna þess að þeirra helsti kúnnahópur er erlendir ferðamenn.

Ströng tungumálalöggjöf í Eistlandi

Í Eistlandi er í gildi ströng tungumálalöggjöf. Eiríkur bendir á að mögulega sé löggjöfin ströng vegna hins fjölmenna rússneska minnihluta þar í landi.

„Vandinn í Eistlandi er sá að það er stór rússneskumælandi minnihluti. Það er um það bil fjórðungur sem á rússnesku að móðurmáli. Málleg réttindi þess hóps eru mjög lítil. Ég ímynda mér að ein ástæðan fyrir því að tungumálalöggjöfin er svona í Eistlandi er rússneskan. Auðvitað af sögulegum ástæðum eru þeir ekkert mjög hrifnir af Rússum og Rússlandi,“ segir Eiríkur.

Möguleg þurfti strangari löggjöf

Árið 2011 tóku lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls gildi. Þar er meðal annars kveðið á um að íslenskan sé opinbert mál á Íslandi og að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að efla íslenska tungu og sjá til þess að hún sé notuð.

Eiríkur bendir á að löggjöfin taki ekki til einkaaðila. Því sé ekkert sem banni veitingastöðum og verslunum að hafa t.d. eingöngu skilti og matseðla á ensku. Þá séu engin ákvæði um eftirfylgni. Spurður hvort tilefni sé að endurskoða íslensku löggjöfina segir Eiríkur:

„Það er alveg spurning hvort það væri ástæða til að vera með eitthvað strangari lög. Það má alveg velta því fyrir sér.“

Hann bætir þó við að hann hafi ekki mikla á trú á því að íslenskunni verði viðhaldið með lögum.

„Ég hef enga rosalega trú á því að íslenskri tungu verði viðhaldið með lögum. Ef þetta snýst um það hvort þjóðin vill halda í tungumálið og ef hún vill það þá á ekki að þurfa lög til þess. Mér finnst alveg mega skoða það hvort það eigi eitthvað að herða á lögum hvað þetta varðar, sem sagt hvað varðar notkun fyrirtækja og einkaaðila á íslensku á opinberum vettvangi,“ segir Eiríkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert