Reiknar ekki með öðrum atburði í Sundhnúkagígum

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir mikilvægt að fá ólík sjónarmið að …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir mikilvægt að fá ólík sjónarmið að borðinu. mbl.is/Arnþór

„Það hefur greinilega dregið úr framleiðninni í gosinu. Hitaflæðið úr gígnum er ekki í réttu hlutfalli við magnið af kviku sem er að koma upp.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurður um mat hans á stöðu eldgossins í ljósi nýrra mynda sem bárust frá gervitunglum.

„Þegar við sjáum það af hitamyndum að hitauppstreymi sé að minnka þá bendir til þess að það sé smátt og smátt að draga úr framleiðninni. Það endar bara á einn veg, með því að gosið stöðvast.“

Þorvaldur bendir á að mökkurinn sé orðinn dekkri. Hann segir að þegar litið sé til fyrri eldgosa geti styst í endalokin á virkni gígjanna.

„Það getur samt mallað í þessu áfram næstu daga. Við erum ekki að tala um endalok á næstu klukkustundum,“ segir Þorvaldur.

Getur tekið daga eða vikur

„Ef við horfum á landris í Svartsengi, þá er það orðið frekar flatt,“ segir Þorvaldur.

Inntur eftir nánari útskýringu segir Þorvaldur það þýða að grynnri kvikugeymslan, sem er á fjögurra til fimm kílómetra dýpi undir Svartsengi, sé ekki lengur að taka við kviku. „Þannig að núna flæðir þetta bara beint upp úr dýpra kvikuhólfinu sem er á tíu til fimmtán kílómetra dýpi.“

Hann segir þetta vera eins og í fyrsta eldgosinu í Fagradalsfjalli árið 2021: „Virknin í gígnum sem er virkur núna svipar til þess sem var fyrstu vikurnar í því gosi. Það einkenndist af veikri kvikuvirkni. Það virðist enn þá ná að halda flæði úr þessu dýpra geymsluhólfi.“

„Þegar það flæði fer niður fyrir tvo eða þrjá rúmmetra á sekúndu þá endar þetta gos. Það getur tekið einhverja daga eða vikur í viðbót,“ segir Þorvaldur enn fremur.

Hringrásinni lokið

Þorvaldur segir góðar fréttir felast í þessum tíðindum: „Ég tel að þegar þessu lýkur mun virknin í Sundhnúkareininni ljúka.“

Aðspurður segist hann ekki reikna með að annar atburður gerist á Sundhnúkagígaröðinni. „Það er ekki þar með sagt að það geti ekki komið upp atburður annars staðar,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Af því þetta er búið að koma úr dýpra hólfinu og landrisið er hætt þá er þetta ferli sem við erum búin að vera horfa á frá 10. nóvember lokið. Að mínu mati hafa þeir atburðir tengst því að kvika flæddi úr þessu dýpra geymsluhólfi í grynnra hólfið.“

Inntur eftir nánari útskýringu svarar Þorvaldur: „Þegar grynnra hólfið var orðið fullt tæmdist það og tengdust atburðirnir tæmingunni,“ segir Þorvaldur og nefnir sprungurnar á Sundhnúkareininni. „Það var að keyra virknina á Sundhnúkareininni eftir stóra atburðinn 10. nóvember.“

Hann telur þann atburð ekki hafa verið keyrðan af kviku, heldur fyrst og fremst af plötuskilum.

Þorvaldur segir að vegna þess að þessari hringrás, þar sem litla hólfið fyllist og tæmist, er lokið sé það vísbending um að atburðirnir á Sundhnúkareininni ljúki líka. „Þá gæti virknin færst eitthvert annað.“

Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars.
Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars. mbl.is/Eyþór

Skjálftarnir segja okkur sögur

Þorvaldur bendir á að skjálftavirkni á Trölladyngju- og Krísuvíkurreininni sé áhugaverð. „Þær geta verið á plötuskilum og kannski er það undirbúningur á næstu gosum sem gætu komið upp austar,“ segir hann.

Aðspurður segist hann ekki geta útilokað að eldgos geti hafist í Eldvörpum.

„Skjálftarnir eru alltaf að segja okkur einhverja sögu þó svo að við skiljum eða jafnvel mistúlkum söguna.“ Hann segir að við sjáum ekki alltaf nákvæmlega hvað sé í gangi á hverjum tíma og að það taki sinn tíma að greina gögnin sem koma.

„Það er alveg mögulegt að það sem gerist í Trölladyngju og Krísuvík sé hreyfing á plötuskilum og greiði leið fyrir kvikuflæði upp til yfirborðs.“

Þarf að skoða allar hliðar

Að lokum bendir Þorvaldur á mikilvægi þess að líta allra hliða málsins.

„Mér finnst líka mikilvægt að vísindamenn tali um það og upplýsi fólk um þessa möguleika því það er hluti af atburðinum og sögunni,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Þjóðin á alveg jafn mikinn rétt á að vita af óvissunni og vísindamennirnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert