Enn lokað um fjölfarnar leiðir

Frá aðgerðum björgunarsveita við Vatnsskarð í gær.
Frá aðgerðum björgunarsveita við Vatnsskarð í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Enn eru fjölfarnar leiðir lokaðar vegna færðar og veðurs. Þjóðvegur 1 er lokaður á tveimur stöðum og aðstæður til moksturs eru víða erfiðar. 

„Mokstursbílarnir eru byrjaðir á öllum helstu leiðum að reyna að þjónusta vegina,“ segir Sveinbjörn Hjálmarsson, þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni, nú í morgunsárið í samtali við mbl.is.

Hann segir að víða sé enn verið að kanna aðstæður á vegum þannig að margt getur breyst með morgninum.

Öxnadalsheiði lokuð að minnsta kosti til hádegis 

„Öxnadalsheiðin er mjög blind og erfið. Hún er lokuð. Það er í fyrsta lagi um hádegisbil sem gæti dregið til tíðinda þar,“ segir Sveinbjörn.

Búið er að opna veginn um Ólafsfjarðarmúla og vegurinn um Ljósavatnsskarð er opinn.

Aðrir vegir á Norðurlandi sem eru ófærir eða lokaðir: Siglufjarðarvegur, Dalsmynni, Víkurskarð, Þverárfjall og Vatnsvegur í Eyjafirði.

Enn lokað á milli Mývatns og Egilsstaða

Á Norðausturlandi er meðal annars ófært eða lokað fyrir umferð á Mývatnsheiði, Brekknaheiði, Dettifossvegi, Vopnafjarðarheiði, Hólasandi, Hófaskarði, Mývatnsöræfum og Möðrudalsöræfum.

„Fjöllin milli Mývatns og Egilsstaða og þar, þeir ætluðu að fara fljótlega að kíkja á það, en þar er lokað enn þá,“ segir Sveinbjörn. 

Snjóað helling í nótt

Á Vestfjörðum er Dynjandisheiði lokuð eða ófær og sömu sögu er að segja um Þröskulda og Sveingrímsfjarðarheiði.  

„Það verður ekkert byrjað að þjónusta á Steingrímsfjarðarheiði fyrr en hádegisbilið, það er mjög erfitt þar líka. Þröskuldarnir eru líka mjög erfiðir, það verður ekki opnað þar strax. Þeir ætla frekar að fara inn Strandarveginn,“ segir Sveinbjörn.

„Svínadalurinn er ófær líka, þar er 21 metri á sekúndu og hefur snjóað helling í nótt.“

Opið um Fagradal

 Á Austurlandi er víða þungfært og þæfingur eða snjóþekja á vegum. Ófært um Vatnsskarð eystra, Öxi, Breiðdalsheiði og Fjarðarheiði.

„Það var verið að opna Fagradalinn fyrir austan, það er mjög gott. Þá er alla vega opið frá Egilsstöðum og suður,“ segir Sveinbjörn.

Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar umferdin.is áður en lagt er í ferðalag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert