Mynd: Umferðarteppa fyrir norðan

Bílaröðin nær svo langt sem augað eygir.
Bílaröðin nær svo langt sem augað eygir. Ljósmynd/Bjarki Reynisson

Bjarki Reynisson ferðalangur á leið frá Akureyri til Reykjavíkur segir farir sínar ekki sléttar, en töluverð umferðateppa hefur skapast allt frá Múlagöngum til Sauðárkróksbrautar hið minnsta. Hann kveðst hafa lagt af stað frá Akureyri fimm mínútur yfir tvö í dag og þegar blaðamaður náði tali af honum klukkan hálf sjö var hann staddur á Sauðárkróksbraut.

Búið er að loka fyrir umferð yfir Öxnadalsheiði fram til morguns. Fyrir vikið hefur umferð verið beint um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg. 

Bíll við bíl

„Það er umferð fyrir framan okkur endilangt og umferð fyrir aftan okkur endilangt,“ segir Bjarki.

Hann lýsir fljúgandi hálku og vegum og að skyggnið sé upp og niður: „Það er mismunandi, í augnablikinu er það frekar gott en á köflum við Siglufjarðarveg var blindbylur,“ sagði Bjarki en stuttu síðar í samtalinu sagði hann að skyggnið hefði versnað að nýju.

Hann segir nánast enga umferð keyra á móti þeim, en að á leiðinni í bæinn sé nánast bíll við bíl.

Ákveðið var að stýra umferð um Múlagöng fyrr í kvöld sökum mikillar umferðateppu.

Lögðu af stað 14:05

Bjarki segir þau hafa stoppað stutt á Siglufirði í von um að slaka myndi á umferðinni, en að það hafi engu breytt: „Það er ennþá alveg endalaus biðröð“.

Hann segir að teppan hafi byrjað við Héðinsfjarðargöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

„Við lögðum af stað fimm mínútur yfir tvo,“ segir Bjarki aðspurður hvenær þau hafi lagt af stað, en þegar blaðamaður náði tali af honum klukkan hálf sjö í dag var hann staddur á Sauðárkróksbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert