Öxnadalsheiði verður ekki opnuð í dag. Vegurinn er lokaður en staðan verður tekin aftur í fyrramálið.
Þetta kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar, umferdin.is. Vetrarfærð er á norðurhluta landsins og margir vegir enn ófærir eða lokaðir.
Vegurinn um Þverárfjall er lokaður en unnið er að opnun, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Sömuleiðis er lokað um Víkurskarð.
Leiðirnar um Ólafsjarðarmúla, Ljósavatnsskarð og Siglufjarðarveg eru opnar.
Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi hefur verið opnaður á ný, auk þess sem opið er um Ljósavatnsskarð og því ættu vegfarendur nú að komast ferða sinna milli Egilsstaða og Akureyrar.
Fjarðarheiði á Austurlandi er lokuð en stefnt er að því að opna leiðina síðar í dag.
Vegirnir um Þröskulda og Dynjandisheiði verða ekki opnaðir í dag sökum ófærðar. Steingrímsfjarðarheiði er opin.