Skíðamenn settu af stað flóð ofan Dalvíkur

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjóflóð féll út á veg í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi og skíðamenn settu af stað lítið flekaflóð í Böggvisstaðafjalli ofan Dalvíkur í dag. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ofanflóðavaktar Veðurstofunnar. 

Éljagangur og skafrenningur hefur verið til fjalla víða á norðurhelmingi landsins, en ekki hefur mælst mikil úrkoma. Talsverður snjór hefur safnast í fjöll síðustu daga og virðist snjór víða vera nokkuð óstöðugur.

Nokkur flekahlaup sáust þegar birti upp á milli élja á Tröllaskaga sem líklega hafa fallið í stórhríðinni í gær en þá féllu tvö flóð sem lokuðu vegum.

Ekki hefur sést vel til fjalla á Austfjörðum, en vitað er um að minnsta kosti eitt snjóflóð inn af Eskifirði.

Síðustu daga hafa fleiri snjóflóð fallið, bæði af mannavöldum og af náttúrulegum orsökum.

Áfram hætta á flóðum

Næstu daga er spáð úrkomulausu hæglætisveðri. Frost verður áfram á norðurhelmingi landsins.

„Við þessar aðstæður er hætt við því að veikleikar í snjóþekjunni viðhaldist og að fólk á ferð í brattlendi geti sett af stað snjóflóð. Því er fólki ráðlagt að fara varlega og forðast brattar brekkur þar sem snjór hefur safnast,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert