„Þetta var glórulaust veður“

Sigríður upplifði það í fyrsta skipti í gær að lenda …
Sigríður upplifði það í fyrsta skipti í gær að lenda í bílaþvögu sem þessari og þurfa að bíða eftir björgunarsveit. Ljósmynd/Landsbjörg

„Við erum meira og minna stopp. Þokuðumst aðeins áfram, svo vorum við bara endalaust stopp og það sást ekkert út um rúðurnar. Þurrkurnar voru klakabrynjaðar þannig að ég fór út til að reyna að berja á þurrkunum. Maðurinn minn var að keyra þannig að ég ákvað að fórna mér og fara út og ég þurfti að halda í húddið upp við framrúðuna til að fjúka ekki út í buskann.“

Svona lýsir Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir ferð fjölskyldu sinnar um Vatnsskarð í gær þar sem þau sátu föst í tvö hundruð bíla röð á meðan beðið var aðstoðar björgunarsveitarinnar. Mikil hálka var efst í Bólstaðahlíðarbrekku og fuku bílar þar til.  

„Það var alger eyðilegging í kjölsogið á okkur“

Upphaflega stóð til að fjölskyldan, sem dvaldi í Mývatnssveit um páskana, myndi keyra suður til Reykjavíkur á laugardag en þar sem Öxnadalsheiði var lokuð reyndist það ekki ganga eftir. 

„Svo í gær var þetta ljómandi fína veður, sól og heiðskírt. Ég fer á netið og sé að það er verið að moka Öxnadalsheiðina þannig að við brunuðum af stað,“ segir Sigríður sem var farinn af stað rétt rúmlega níu í gærmorgun. 

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir páskahretið árvisst. Það sé náttúrulögmál.
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir páskahretið árvisst. Það sé náttúrulögmál. Ljósmynd/Aðsend

Það var síðan þegar Sigríður var komin suður til Reykjavíkur sem hún heyrir af því að snjóflóð hafði fallið í Ljósavatnsskarði skömmu eftir að þau áttu þar leið um, auk þess sem Öxnadalsheiði lokaðist um klukkutíma eftir að þau fóru þar yfir. 

„Það var alger eyðilegging í kjölsogið á okkur.“

Sigríður fór út til að berja á þurrkunum

Að sögn Sigríðar hafði fjölskyldan ráðgert að stoppa í Varmahlíð, en á undan því hafði ekkert verið stoppað. Þegar þangað var komið reyndist þar vera mikill skafrenningur og ljótt veðurútlit. Fjölskyldan ákvað því að halda ferð sinni áfram á Blönduós og freista þess að stoppa þar. 

„Þegar við komum upp í Vatnsskarðið þá sjáum við að þar er rosalega hvasst. Ég held að það hafi verið eitthvað um 24 metrar á sekúndu og lítið skyggni,“ segir Sigríður og útskýrir að þegar fjölskyldan var komin upp á Vatnsskarð hafi bílaröðin þést og lítið sem ekkert sést út um rúðurnar. 

„Það var ekkert snjór á vegi eða neitt svoleiðis það var bara brjálað rok, brjálaður skafrenningur og ótrúlega margir bílar,“ segir hún en fjölskyldan var meira og minna stopp á Vatnsskarði þó hafi þokast áfram. 

„Þetta var glórulaust veður.“

Fjölskyldan komst að endingu niður af Vatnsskarði en Sigríður segir ástandið í Langadal hafa verið lítið betra, en þar áttu þau eftir um fjörutíu kílómetra leið á Blönduós. „Það var sama sagan þar sást eiginlega ekki neitt því það kemur svona strengur í norðanáttinni.“ 

Ferðamenn á húsbíl  á ónegldum dekkjum

Sigríður sem hefur starfað hjá Byggðastofnun í tuttugu ár kveðst hafa farið í mikið af vetrarferðum og allskonar svaðilförum í tengslum við starf sitt í gegnum árin. Það sem hún segir hafa breyst mest á þessum tíma er fjöldi ferðamanna á vegunum. 

Sem dæmi nefnir hún að á leið fjölskyldunnar niður Bólstaðahlíðarbrekkuna hafi hún horft inn í bíla þar sem mátti sjá ferðamenn lamaða af hræðslu í alls konar ökutækjum. 

„Ég meina ég skil þá vel, þetta er fólk sem hefur aldrei séð snjó ímynda ég mér. [...] Svo sá ég að það var allt fullt af útlendingum á allskonar bílum. Ég velti aðeins fyrir mér hvað er verið að setja undir þessi grey,“ segir Sigríður og nefnir sem dæmi útlendinga sem voru þarna staddir á húsbíl á ónegldum dekkjum. 

Í þessu samhengi veltir hún fyrir sér hvort ekki þurfi að gera meiri kröfu til ferðamanna þegar kemur að aksturshæfni þeirra og reynslu á því að keyra í veðri sem þessu. 

Það var brjálað rok, brjálaður skafrenningur og ótrúlega margir bílar …
Það var brjálað rok, brjálaður skafrenningur og ótrúlega margir bílar á Vatnsskarði í gær að sögn Sigríðar. Ljósmynd/Landsbjörg

Íslendingar „svolítið mikið í því að sjást ekki fyrir“

Þegar blaðamaður segir Sigríði að mbl.is hafi borist upplýsingar um að björgunarsveitirnar, sem komu til aðstoðar á Vatnsskarð í gær, hafi ekki síður þurft að aðstoða Íslendinga sem ekki þorðu að aka bílum sínum niður Bólstaðahlíðarbrekkuna segir Sigríður: 

„Það er mikið til í því við erum svolítið mikið í því að sjást ekki fyrir og arka af stað í allan fjandann við Íslendingar og það er svo sem alveg nóg af fólki hér innanlands sem kann ekki að keyra í svona aðstæðum.“ 

Sigríður tekur þó fram að hún og maðurinn hennar hafi mikla reynslu af því að aka í erfiðum aðstæðum. Aftur á móti sé lítið hægt að gera í aðstæðum sem þessum þegar bílar eru eins og hráviði allt í kring. 

„Þá verður maður einfaldlega að bíða og sjá hverju fram vindur,“ segir hún og bætir við: 

„En mér fannst svo fyndið, af því að ég er búin að vera að keyra innanlands í vetrarakstri í tuttugu ár, að þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í svona bílaþvögu og er að bíða eftir björgunarsveitinni. Það hefur aldrei gerst áður.“

„Páskahretið er árvisst, það er náttúrulögmál“

Eftir margra klukkustunda ferðalag komust Sigríður og fjölskylda hennar loksins á leiðarenda. Sigríður kveðst jafnframt hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún ætli aldrei aftur að ferðast um páska. 

„Ég sagði við karlinn minn að héðan í frá þá færi ég ekkert með honum um páskana. Alveg sama hvort að páskarnir væru í mars eða apríl. Páskahretið er árvisst, það er náttúrulögmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert