Vegir víða verið opnaðir en Öxndalsheiði enn lokuð

Þungfært, þæfingur eða snjóþekja er víða á vegum á norðausturlandi.
Þungfært, þæfingur eða snjóþekja er víða á vegum á norðausturlandi. Ljósmynd/Landsbjörg

Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi hefur verið opnaður á ný, auk þess sem opið er um Ljósavatnsskarð og því ættu vegfarendur nú að komast ferða sinna milli Egilsstaða og Akureyrar.

Þetta kemur fram á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar umferdin.is. Þar má jafnframt sjá að enn er lokað um Öxnadalsheiði. Vegurinn er þó í skoðun en á vefnum segir að aðstæður fyrir mokstur séu ekki góðar. 

„Hvasst og mjög blint er á heiðinni og veðurspá slæm. Óvíst er hvort takist að opna heiðina en við birtum nýjar upplýsingar hér þegar þær berast,“ segir á vefnum um Öxnadalsheiði. 

Þess ber að geta að mikið álag er á símanum 1777 og eru vegfarendur því hvattir til að kynna sér upplýsingar á umferdind.is

Margir komast nú ferða sinna á norðausturlandi

Eins og fram kemur hér að ofan er opið um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, en lokað hefur verið þar um síðan snemma á laugardagsmorgun. Víða á leiðinni er snjóþekja eða hálka og því ber fólki að fara varlega. 

Eins hefur Vopnafjarðaheiði verið lokuð síðustu daga en vegurinn þar um hefur nú verið opnaður.

Þá er vegurinn um Fjarðarheiði enn lokaður og næstu upplýsinga að vænta eftir hádegi. 

„Þungfært, þæfingur eða snjóþekja er víða á vegum. Ófært er á Vatnsskarði eystra, um Öxi og Breiðdalsheiði. Víða hefur sést til hreindýra við og á vegum, vinsamlegast akið með gát,“ segir á vef Vegagerðarinnar um Austurland. 

Víða hálka eða hálkublettir á Norðurlandi 

Á Norðurlandi er Öxnadalsheiði lokuð eins og fyrr segir. Þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi en hann er þó opinn.

Þá er vegurinn um Þverárfjall lokaður en næstu upplýsinga er að vænta eftir hádegi. 

Opið er um Ljósavatnsskarð og Ólafsfjarðarmúla, en lokað um Víkurskarð og ófært um veginn í Dalsmynni. 

„Hálka eða hálkublettir eru víða en þæfingsfærð eða snjóþekja á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Ófært er um Vatnsnesveg,“ segir á vefnum um Norðurland. 

Opnað hefur verið um Steingrímsfjarðarheiði

Á Vestfjörðum hefur vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði verið opnaður. Það er þó enn ófært um Þröskulda vegna veðurs en skoðað verður með mokstur seinna í dag. 

Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður en búið er að opna veginn í Hestfirði. 

Um vegina á Vestfjörðum segir á umferdin.is: 

„Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru víða en þó þæfingsfærð á nokkrum leiðum. Ófært er norður í Árneshrepp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert