Í desember 2023 voru 22 starfsmannaleigur skráðar hjá Vinnumálastofnun í samræmi við lög um starfsmannaleigur. Alls komu 1.572 einstaklingar í fyrra til að starfa hjá slíkum leigum. Þeir voru 1.612 árið áður og 1.124 árið 2021.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við fyrirspurn Valgerðar Árnadóttur, sem er varaþingmaður Pírata.
Þar kemur einnig fram að árið 2014 hafi aðeins 38 komið til Íslands í gegnum starfsmannaleigur, en fjöldinn fór hæst í 3.506 árið 2018.
Séu atvinnugreinar skoðaðar sérstaklega, þá komu langflestir til að vinna verkmannastörf, eða 1.139 einstaklingar í fyrra. Næst á eftir kom rafvirkjun, eða 72 talsins, og svo 66 við trésmíði. Upplýsingarnar eru fengnar frá Vinnumálastofnun.
Flestir komu frá Póllandi, eða 651 í fyrra, þá 322 frá Lettlandi og 301 frá Litháen. Ríkisborgarar frá Rúmeníu verma svo fjórða sætið, en þeir voru 118 talsins í fyrra.
Séu kynin skoðuð þá kemur í ljós að karlmenn eru í yfirgnæfandi meirihluta. Þeir voru 1.494 á móti 78 konum í fyrra, sem er svipað hlutfall og árið áður.
Valgerður spurði m.a.hversu lengi hafi starfsfólk starfsmannaleigna dvalið að jafnaði á Íslandi síðastliðin tíu ár.
Í svari ráðherra kemur fram, að slíkar upplýsingar liggi hvorki fyrir hjá ráðuneytinu né hjá Vinnumálastofnun. Ráðuneytinu sé ekki kunnugt um hvort og þá hvar unnt er að nálgast slíkar upplýsingar.