Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, er bjartsýn á að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram fari Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í forsetaframboð. Þá segir hún að mikilvægt að sjá hvernig þessi vika þróast.
Þetta sagði Lilja í Kastljósi fyrr í kvöld.
Hávær orðrómur um mögulegt forsetaframboð forsætisráðherra hefur verið áberandi síðustu vikur og hefur Katrín sjálf ekki útilokað framboð.
Í Kastljósi segir Lilja að Katrín hafi staðið sig mjög vel sem forsætisráðherra og ef Katrín hafi áhuga á forsetaframboði komi það líklega í ljós í vikunni.
„Varðandi ríkisstjórnarsamstarfið hafa þessir flokkar unnið lengi og vel saman og ég er auðvitað bjartsýn á það að það haldi áfram og að við finnum lausn á þessu saman,“ segir Lilja.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að boða þingflokk Sjálfstæðisflokksins á fund á morgun vegna mögulegs forsetaframboðs Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Lilja hefur ekki heyrt frá sínum þingflokksformanni hvað þetta varðar og bætir við að forsætisráðherra þurfi fyrst að gera grein fyrir því hvað hún ætlar sér.
Þegar spurð hvort hún telji að Katrín bjóði sig fram segir Lilja ekki geta sagt til um það.
„Stundum held ég það og stundum ekki. Hún hefur ekki greint mér frá því.“