Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að boða þingflokk Sjálfstæðisflokksins á fund á morgun vegna mögulegs forsetaframboðs Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hildur telur meiri líkur en minni á því að Katrín bjóði sig fram til forseta.
Þetta segir Hildur í samtali við mbl.is.
„Já ég get staðfest að við munum halda þingflokksfund á morgun. Þrátt fyrir að Alþingi sé ekki að störfum finnst mér rétt að boða til þingflokksfundar vegna þessarar stöðu. Þó að ekkert liggi fyrir enn sem komið er finnst mér eðlilegt að við ræðum saman okkar í milli hvað mögulegt framboð forsætisráðherra gæti haft í för með sér,“ segir Hildur aðspurð.
Hvað gerist við ríkisstjórnarsamstarfið ef Katrín fer í framboð?
„Það gefur auga leið að það mun hafa einhver áhrif á þetta samstarf. Staðan er sú að þetta liggur ekki fyrir,“ segir Hildur.
Finnst þér meiri líkur en minni á því að Katrín fari fram?
„Miðað við þann tíma sem hefur liðið þá myndi ég persónulega halda að það væru meiri líkur en minni. En ég hef ekkert meiri fyrir mér í því heldur en hver annar sem er að fylgjast með þessari atburðarás að svo komnu máli,“ segir Hildur.
Heimildir mbl.is herma að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi um liðna helgi rætt við þingmenn flokksins um hvað væri til ráða ef ske kynni að Katrín færi í framboð og hvaða áhrif það myndi hafa á núverandi samstarf. Voru ýmsir kostir ræddir í þeim samtölum.
Stofnað hefur verið lénið katrinjakobs.is. Var það gert á þriðjudaginn í síðustu viku, samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu Internets á Íslandi hf. (ISNIC). Rétthafi katrinjakobs.is er sá sami og er skráður greiðandi fyrir katrinjakobsdottir.is sem varð til 11. október 2006. Nokkuð víst er að Katrín hafi sjálf stofnað nýja lénið 26. mars, því vefsíðan katrinjakobsdottir.is hefur verið notuð af henni í gegnum tíðina.