Það þurftu margir ökumenn rafbíla að bíða ansi lengi eftir að hlaða bíla sína í Staðarskála í Hrútafirði í dag.
Aðeins fjórar af átta hleðslustöðvum hjá N1 í Staðarskála voru virkar.
„Stríðsástand í Staðarskála! Það er algjörlega óboðlegt að 4 af 8 hleðslustöðvum séu ýmist ekki tengdar eða bilaðar. N1 verður að gera betur,“ skrifar Bergur Þorri Benjamínsson í færslu á Facebook en hann var einn þeirra sem beið lengi eftir að komast í hleðslu með bíl sinn.
„Það er búið að vera ansi mikið að gera í dag. Ég held að það hafi eitthvað um tvö þúsund manns komið við hjá okkur í Staðarskála í dag. Það er alltaf eitthvað vesen á þessum hleðslustöðvum og ég held að þrjár þeirra séu bilaðar. Á einum tímapunkti í dag voru um tíu bílar í biðröð eftir að komast í hleðslu,“ segir Kristján Gunnarsson, starfsmaður í Staðarskála, við mbl.is.