„Það sem flækist fyrir okkur og okkar félögum er auðvitað það að þessi samningur sem var gerður á almenna markaðnum. Hann þvælist fyrir félögunum.“
Þetta segir Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, en kjarasamningar aðildarfélaga BHM losnuðu um mánaðamótin. Í BHM eru 24 aðildarfélög og yfir 18 þúsund félagar.
„Það eru öll félögin búin að skoða samninginn sem var gerður á almanna markaðnum og við höfum fengið mjög góða kynningu á því hvernig er verið innleiða hann í launatöflur hjá Eflingu og ASÍ félögunum,“ segir Kolbrún við mbl.is.
Hún segir að ekki sé búið að taka ákvörðun með hvað hætti félögin innan BHM gangi til samningaborðs. Hún segir mjög ólíklegt að öll aðildarfélögin gangi saman til viðræðna en ekki hefur verið boðað til funda við viðsemjendur.
„Það er möguleiki á að þetta „klasist“ eitthvað og að félög með skylda hagsmuni fari saman að einhverju leyti,“ segir Kolbrún en 21 félag er með samninga við opinbera markaðinn, ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög.
„Það sem líka flækir þetta mál er að það er ekki alveg einboðið að það sé skynsamlegt fyrir félögin undir hatti BHM að ræða við opinbera launagreiðendur saman því launamyndunarkerfi hjá borginni og sveitarfélögum eru öðruvísi heldur en hjá ríkinu. Þess vegna eru félög BHM ekki komin að samningaborði,“ segir Kolbrún.
Kolbrún reiknar með að fundir hefjist hjá ríkissáttasemjara á næstu dögum. Hún segir að búið sé að vinna í verkáætlunum til að mynda með veikindaréttinn, betri vinnutíma og ákveðnum hlutum.
„Það er ekki farið að ræða heildar kjarasamninga en það er verið að tala saman um ýmsa þætti,“ segir Kolbrún.
Ert þú bjartsýn á að samningaviðræðurnar gangi fljótt og vel fyrir sig?
„Eigum við ekki að segja að fæst orð bera minnsta ábyrgð. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er snúið verkefni en það er talsamband og það er vilji á báða bóga. Auðvitað munum við á endanum ná samningum en þetta er snúnara fyrir okkur af því að okkar launamyndunarkerfi er svo ólikt almenna markaðnum. Okkar fólk situr bara fast í töflum árum og áratugum saman en stór hluti af almenna markaðnum er á markaðslaunum,“ segir Kolbrún.