Þyrla gæslunnar kölluð út vegna snjóflóðs

Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna snjóflóðs í Böggvisstaðafjalli, vestur …
Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna snjóflóðs í Böggvisstaðafjalli, vestur af Dalvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þyrlusveit landhelgisgæslunnar var kölluð út klukkan 13.15 að beiðni lögreglunnar vegna snjóflóðs í Böggvisstaðafjalli vestur af Dalvík.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi landhelgisgæslunnar segir við mbl.is að björgunarsveitarmenn frá slysavarnafélaginu Landsbjörg séu með í för með þyrlunni og hún sé þegar lögð af stað.

Ásgeir segir eitt varðskip staðsett á Vestfjörðum vegna yfirvofandi snjóflóðahættu þar. Hann gerir ekki ráð fyrir að það verði fært úr stað vegna atburðanna fyrir norðan, viðbragðið einskorðist við þyrluna nú.

Uppfært 14.02

Útlit er fyrir að engum hafi orðið meint af snjóflóði sem féll Dýjadal í Böggvisstaðafjalli.

Flóðið fór af stað undan hópi vélsleðamanna. Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar var sá sem tilkynnti snjóflóðið í einhverri fjarlægð frá því og sýndist sem einhver hefði lent undir flóðinu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að svo virðist ekki vera.

Skíðafólk var á svipuðum slóðum en ekki var að sjá að því hefði orðið meint af að sögn Jóns Þórs.

„Það lítur út fyrir að enginn hafi lent í flóðinu en það á eftir að staðreyna það endanlega,“ segir Jón Þór.

Björgunarsveitarfólk er í biðstöðu eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert