Viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri

Veðurstofa Íslands bendir á að undanfarið hafi kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna við Grindavík en það er viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri.

Tekið er fram að hraunjaðrar séu víða orðnir háir og glóandi hraun geti fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótist fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða.

Tímabundið mælst há gildi af brennisteinsvetni

„Síðustu daga hafa tímabundið mælst há gildi af brennisteinsvetni í Grindavík. Veðurspáin í dag (þriðjudag) er norðaustan og síðar austan 5-13 m/s á gosstöðvunum. Gasmengun berst því til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum. Austan og suðaustan 3-10 m/s á morgun (miðvikudag) og gasmengun berst því til vesturs og norðvesturs og gæti mælst víða á vesturhluta Reykjaness, þ.á m. í Reykjanesbæ,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar. 

Gasdreifingarspá er hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert