„Vorum sem betur fer fljótir að finna hann“

Maðurinn sem lenti undir snjóflóðinu austur af Höskuldsvatnshnjúk í dag.
Maðurinn sem lenti undir snjóflóðinu austur af Höskuldsvatnshnjúk í dag. Mynd/Aðsend

Það fór betur en á horfðist þegar maður lenti undir snjóflóði austur af Höskuldsvatnshnjúk um 10 kílómetrum frá Húsavík í dag.

Sex menn á vélsleðum voru á staðnum þegar snjóflóðið féll. Einn þeirra lenti undir flóðinu og fannst hann fljótlega. Fyrsta verk félaga hans var að tryggja öndum þar sem hjálmur hans fylltist af snjó.

Nokkuð stórt flóð og býsna efnismikið

„Það voru sex sleðar þarna á svæðinu í rjómablíðu. Ég var aðeins fjær og horfði á þetta gerast. Þetta var nokkuð stórt flóð og býsna efnismikið. Tveir sleðanna komu flóðinu af stað og annar mannanna lenti undir því. Við sáum hvar hann var þegar hann lenti undir flóðinu. Hann fór marga metra með flóðinu en við vorum sem betur fer fljótir að finna hann. Það hefur líka hjálpað til að hann var með snjóflóðapoka á bakinu sem lyfti honum aðeins upp,“ segir Hreinn Hjartarson við mbl.is en hann telur að maðurinn hafi verið á eins metra dýpi.

Betur fór en á horfiðst þegar maðurinn lenti undir snjóflóðinu.
Betur fór en á horfiðst þegar maðurinn lenti undir snjóflóðinu.

Hann segir að hjálmur mannsins hafi fyllst af snjó og hann telur að maðurinn hefði ekki lifað lengi ef hjálp hefði ekki borist fljótlega. Hreinn segir að maðurinn hafi sloppið tiltölulega heill úr flóðinu en muni líklega fá einhverja marbletti á skrokkinn.

„Hann kom að mestu ómeiddur út úr þessu en við þurftum að draga sleða hans til byggða þar sem hann varð fyrir skemmdum,“ segir Hreinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert