Hugbúnaðarvilla gerði það að verkum að fjórar af átta hleðslustöðvum N1 í Staðarskála lágu niðri á sama tíma og mikil ásókn var í að hlaða bíla þar á annan í páskum.
Langar biðraðir mynduðust og margir þurftu að bíða eftir að geta hlaðið bílinn til að geta haldið ferð áfram.
Vandamálið kom upp á einni stærstu ferðahelgi ársins. Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, segir að ástandið sem upp kom í Staðarskála sýni hve hleðslunetið er viðkvæmt.
„Þetta var hugbúnaðarvilla sem kom upp á gríðarlega óheppilegum tíma. Framleiðandinn erlendis er vinna í því að skoða hvað fór úrskeiðis,“ segir Ýmir.
Mikillar óánægju gætti meðal viðskiptavina og líkti einn þeirra ástandinu við stríðsástand.
„Þetta endurspeglar í raun stærri birtingarmynd af vandanum. Við erum með of lítið af hleðslustöðvum. Einnig varpar þetta ljósi á það að innviðirnir þurfa að vera rúmir á svona álagspunktum eins og stærsta ferðahelgi ársins er,“ segir Ýmir.
„Við stýrum ekki villunni heldur er þetta villa frá framleiðanda með tilheyrandi vanda fyrir viðskiptavini. Lausnin í því er að vera með nóg af hleðslustöðvum og vera með hleðslustöðvar í Borgarnesi og á Blönduósi t.a.m. í stað þess að geta treyst á Staðarskála einan á norðurleiðinni,“ segir Ýmir.
Bendir hann á að unnið sé að því að byggja upp þéttara hleðslunet.