Andrés Magnússon
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir von á því á allra næstu dögum hvort hún láti verða af forsetaframboði, líkt og margir hafa talið líklegt.
„Ég fór ekki að hugsa þetta alvöru fyrr en um páskahátíðina,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
„Ég hef bæði heyrt í fólki og tekið mér tíma til þess að velta þessu fyrir mér, svona sjálf. Ég er á lokametrunum í þeirri ígrundun og mun gefa svör um það hvort ég læt vaða, á allra næstu dögum.“
Hún vildi ekki tilgreina nánar hvenær þeirrar niðurstöðu væri að vænta, en líklegt má telja að það gerist um eða fyrir þessa helgi. Þing kemur saman á ný í næstu viku og ganga þarf frá þessum og ýmsum endum öðrum fyrir það.
„Ég geri mér grein fyrir því að staða mín, í ljósi þess að ég gegni embætti forsætisráðherra, er snúin. Ég hef því upplýst félaga mína, Bjarna [Benediktsson] og Sigurð [Inga Jóhannsson], um að ég sé að velta þessu fyrir mér. Og geri mér líka grein fyrir því að sú umhugsun má ekki taka of langan tíma.“
Þingflokkur Vinstri grænna hittist fyrir ríkisstjórnarfund í dag, en að sögn voru mögulegt forsetaframboð Katrínar og ríkisstjórnarsamstarfið þar helst til umræðu.
Heimildir mbl.is innan úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði herma að þar á bæ telji menn réttast að núverandi ríkisstjórnarsamstarf haldi áfram ákveði Katrín að hverfa á braut.