Kvikan streymir líklega úr 15 kílómetra dýpi

Eldgos við Sundhnúkagíga og gróðureldar norður af Grindavík á föstudaginn …
Eldgos við Sundhnúkagíga og gróðureldar norður af Grindavík á föstudaginn langa, 29. mars 2024. Tveir gíg­ar eru enn virkir. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Enn eru engin merki um að gosinu við Sund­hnúkagígaröðina sé að ljúka. Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, telur líklegt að kvikan streymi úr um 15 kílómetra dýpi.

„Miðað við það sem ég var að skoða í gær virðist þetta bara vera stöðugt enn þá og ég gat ekki séð að það væri eitthvað að draga úr þessu, þannig að þetta virðist vera í jafnvægi. Aflögun er í jafnvægi líka, þannig að við erum hætt að sjá færslur í kringum Svartsengi. Það er mjög flatt, þannig að þetta er bara frekar stöðugt,“ segir Benedikt en hann var staddur í fríi í Mílanó þegar mbl.is sló á þráðinn hjá honum.

Land er því ekki tekið að rísa og engin merki eru um að þessu eldgosinu sé að ljúka von bráðar, að sögn Benedikts. „En maður verður að passa sig á svoleiðis pælingum. Þetta getur bar hætt einn, tveir og þrír, það þarf ekki að vera einhver fyrirvari.“ bætir hann við. „Þetta gæti hætt á eftir þess vegna.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands. mbl.is

Dýpri en 10 kílómetrar

Benedikt segir að kvikuflæðið úr neðra kvikuhólfinu sé stöðugt og greinilega sé engin kvika sem safnast fyrir í efra hólfinu, heldur fari hún frekar beint út um gossprunguna.

„Það kemur örugglega úr þessu stærra kvikuhólfi og ég myndi halda að efnafræðin ætti að segja okkur fljótlega að þetta er að koma af talsverðu dýpi. Mér finnst það líklegt“ segir hann. Enn er þó beðið eftir þeim gögnum.

„Ég myndi halda að þetta komi af miklu dýpi. Dýpri en 10 kílómetrar, dýpri en 15 jafnvel,“ bætir hann við.

Þá sjást heldur engin afgerandi aflögunarmerki í jarðskorpunni, t.d. landsig. Þess vegna ber Benedikt yfirstandandi gos saman við eldgosið í Fagradallsfjalli 2021. Þar sást ekki mikið landsig fyrr en um tveimur mánuðum eftir að gosið hófst, að sögn Benedikts.

„Það gæti alveg orðið raunin þarna [við Sundhnúk] og í rauninni gæti þetta verið sama sort og í Fagradalsfjalli.“

Hvers vegna varir þetta gos lengur?

Þetta er fjórða eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni innan við fjóra mánuði en fyrstu þrjú vörðu ekki nema í nokkra daga. Hvers vegna sker þetta gos sig út frá hinum þremur?

„Ég held að við getum aldrei í rauninni fullyrt um það. Þetta er í raun bara einhver þróun á kerfinu. Það eru einhverjar flóknar aðstæður í jarðskorpunni sem stýra því hvernig þetta gos hefðar sér. Við höfum kannski engar mælingar sem geta sagt okkur að nákvæmlega.“

„Þetta er bara þróun og svona kerfi haga sér ekki alltaf eins. Smám saman þróast þetta í einhverja átt, stundum hratt og stundum hægt.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði við mbl.is í síðustu viku að hann teldi að virkni virkni í Sund­hnúk­arein­inni myndi ljúka þegar gosinu lýkur. Inntur eftir viðbrögðum við ummælum Þorvaldar svarar Benedikt:

„Ég veit ekki alveg hvað hann hefur fyrir sér í því. Það getur alveg verið rétt en við getum ekkert fullyrt um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert