Stöðug virkni er áfram í tveimur gígum í eldgosinu við Sundhnúkagíga og rennur hraun mest í austurátt. Lítil brennisteinsmengun hefur mælst í nótt en hún hækkaði tímabundið í Bláa lóninu í kringum miðnætti.
Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hefur mengunin verið að berast til vesturs og hefur magnið ekki verið hættulegt.
Í dag er spáð austanátt og fer gosmengunin það hátt upp að hún ætti ekki að verða mikil fyrr en mögulega eftir hádegi, og þá í Grindavík.
Sigríður segir engar vísbendingar uppi um að eldgosið sé að hætta.