Þessi fimm hafa náð lágmarkinu

Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Halla Tómasdóttir og …
Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr segjast vera búin að safna lágmarksfjölda meðmæla. Samsett mynd

Að minnsta kosti fimm frambjóðendur til embættis forseta Íslands hafa náð lágmarksfjölda meðmæla sem þarf til að vera kjörgengur. 62 einstaklingar eru nú að safna meðmælum til að verða kjörgengir.

Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdarstjóri Landskjörstjórnar, segir í samtali við mbl.is að sér að vitandi þá hafi aldrei áður verið jafn mikill fjöldi fólks sem hafi safnað meðmælum fyrir forsetakosningar og nú í ár.

Hún segir þó erfitt að vita það fyrir víst þar sem fólk safnaði áður meðmælum aðeins á pappír.

Lágmark að fá 1.500 meðmæli

Frambjóðendur vinna nú að því að safna meðmælum til að vera kjörgengir. Að lágmarki þarf hver frambjóðandi 1.500 undirskriftir og að mestu 3.000 undirskriftir.

Samkvæmt svörum frambjóðenda við fyrirspurn mbl.is þá eru þetta þeir frambjóðendur sem hafa safnað að lágmarki 1.500 undirskriftum.

  • Arnar Þór Jónsson
  • Ástþór Magnússon
  • Baldur Þórhallsson
  • Halla Tómasdóttir
  • Jón Gnarr

Þegar hafa 62 einstaklingar stigið fram og boðið sig fram til forseta. Meðal þeirra eru:

  • Bald­ur Þór­halls­son stjórn­mála­fræðipró­fess­or
  • Halla Tóm­as­dótt­ir frum­kvöðull
  • Arn­ar Þór Jóns­son lögmaður
  • Jón Gnarr, skemmtikraftur og fyrrverandi borgarstjóri
  • Ástþór Magnús­son, bílasali og friðarsinni
  • Ásdís Rán Gunn­ars­dótt­ir at­hafna­kona
  • Helga Þóris­dótt­ir, for­stjóri Per­sónu­vernd­ar
  • Sig­ríður Hrund Pét­urs­dótt­ir, fjár­fest­ir og fyrrverandi formaður FKA
  • Guðmundur Felix Grétarsson
  • Guðni Þór Þrándarson

Ef allir 62 frambjóðendur, margir af hverjum sem hafa ekki einu sinni tilkynnt um framboð sín, myndu fá 1.500 meðmæli þá þýðir það að 93 þúsund kosningabærra manna þyrftu að mæla með einhverjum.

Ef aðeins er litið á þá sem hafa sérstaklega tilkynnt um framboð sín þá eru það um 10 manns. Það þýðir að í það minnsta 15.000 kosningabærra manna þyrftu að mæla með frambjóðanda. 

Nokkrir sem liggja enn undir felldi

Línurnar skýrast meira með hverjum deginum sem líður en þó eru enn þá stór nöfn á hliðarlínunni sem hafa verið orðuð við embættið og liggja undir felldi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til framboðs en framámenn innan Vinstri grænna segja hana íhuga málið alvarlega um þessar mundir.

Halla Hrund Loga­dótt­ir, orku­mála­stjóri, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að hún myndi greina frá ákvörðun sinni fljótlega eftir páska og svo kveðst Jakob Frímann, þingmaður Flokks fólksins, liggja undir feldi og íhuga mögulegt framboð.

Kosið 1. júní

Guðni for­seti hef­ur þá sjálf­ur, í svari við fyr­ir­spurn Morg­un­blaðsins, viður­kennt að hon­um ber­ist stöðugar hvatn­ing­ar og áskor­an­ir um að end­ur­skoða ákvörðun sína um að láta af embætti í sum­ar.

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní 2024.

Þann 26. apríl rennur framboðsfrestur út og 2. maí mun landskjörstjórn auglýsa hverjir eru í framboði til forseta. Eftir það verður hægt að kjósa utan kjörfundar m.a. hjá sýslumönnum og erlendis í sendiráðum og hjá ræðismönnum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert