Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, vill ekkert gefa upp spurður hvort Framsóknarflokkurinn geri kröfu á forsætisráðherrastólinn í kjölfar afsagnar Katrínar Jakobsdóttur vegna forsetaframboðs.
Hann segir að Katrín hafi upplýst bæði sig og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um að hún væri alvarlega að íhuga framboð til forseta Íslands fyrir nokkrum dögum.
Síðan hafa allar samræður verið á óformlegum nótum á milli stjórnmálamanna.
Hann segir það eiga eftir að koma í ljós hvort samstarfinu verði áframhaldið og að hann hafi engar forsendur til að meta það fyrr en menn setjist niður og ræði málin formlega.
„Núna er staðan þannig að við höfum í tvo daga, á meðan ekki lá fyrir endanleg afstaða forsætisráðherra, vitað að við myndum hefja samtal þegar niðurstaðan lægi fyrir. Við munum taka tal saman eftir að þingflokkarnir eru búnir að funda,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir allar vangaveltur um ráðherrastóla þurfa að bíða þar til það samtal hafi átt sér stað.
„Katrín var búin að hitta mig og Bjarna fyrir einhverjum dögum að hún væri að íhuga þetta alvarlega. Við vorum því meðvitaðir um að þetta gæti gerst eins og rétt eins og alþjóð," segir Sigurður Ingi.
Hafa samræður farið fram á milli stjórnarflokka um framhaldið?
„Eðlilega þurfa að fara fram einhver samtöl. En á meðan Katrín var ekki búin að taka afstöðu þá var ekki eðlilegt að fara í djúpar viðræður. En auðvitað erum við búin að ræða eitthvað saman, við sem erum saman í stjórnmálum. Annað væri óeðlilegt,“ segir Sigurður Ingi.
Kom ákvörðun Katrínar flatt upp á þig?
„Nei ég get ekki sagt að hún hafi komið flatt upp á mig. Það eru búinn verða talsverður orðrómur um þetta í einhvern tíma,“ segir Sigurður Ingi.
Verður krafa frá Framsóknarmönnum um forsætisráðuneytið?
„Við tökum bara öll þessi samtöl um það hvernig hlutirnir geta verið og hvernig við munum skipta liði svo stjórnarsamstarfið geti gengið eftir. Við höldum öðru innan okkar raða þangað til eitthvað liggur fyrir,“ segir Sigurður Ingi.
Af þínum samtölum að dæma, skynjarðu þá að það sé fullur hugur hjá samstarfsflokkunum að halda áfram samstarfi?
„Það þarf að koma í ljós þar sem ákvörðunin liggur fyrir og við þurfum að taka það samtal. Það kemur í ljós á næstu klukkustundum eða sólarhringum. Við höfum ekki mikinn tíma þar sem þetta gerist nú nokkuð hratt,“ segir Sigurður Ingi.