Andlát: Ingvi Þ. Þorsteinsson

Ingvi Þ. Þorsteinsson.
Ingvi Þ. Þorsteinsson.

Ingvi Þ. Þorsteinsson náttúrufræðingur lést á hjúkrunarheimilinu Grund á skírdag, 28. mars, 94 ára að aldri.

Ingvi fæddist 28. febrúar 1930 í Reykjavík og ólst upp á Njálsgötunni. Foreldrar hans voru Þorsteinn Nikulás Þorsteinsson skipstjóri og Karítas Guðmundsdóttir húsmóðir. Þau létust er Ingvi var ungur að árum og fósturforeldrar hans frá þriggja ára aldri voru Hermann G. Hermannsson og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, föðursystir Ingva.

Ingvi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950, prófi frá bændaskólanum á Hvanneyri 1951, háskólaprófi frá Landbúnaðarháskólanum á Ási í Noregi 1955 og meistaraprófi frá Montana State University árið 1960.

Ingvi starfaði sem sérfræðingur í gróðurfræði og deildarstjóri frá 1957 á Atvinnudeild Háskóla Íslands, síðar Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti (RALA). Þar stjórnaði hann meðal annars gróðurkortagerð og öðrum gróðurrannsóknum með það að markmiði að mæla og kanna flatarmál og eðli gróðurs landsins. Auk starfa við RALA sinnti Ingvi starfi fulltrúa Landgræðslu ríkisins árin 1965-70. Þá stundaði hann kennslu, meðal annars við Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands 1975-1985. Þá stjórnaði hann gróðurkortagerð og -rannsóknum á Suður-Grænlandi á vegum grænlensku heimastjórnarinnar árin 1977-1985.

Ingvi var meðal stofnenda Landverndar og sat þar í stjórn. Hann var einnig meðal stofnenda og formaður samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, árin 1997-2001. Ingvi ritaði fjölda grein í blöð og tímarit um gróðurvernd, landnýtingu og önnur umhverfismál. Hann hlaut landgræðsluverðlaunin árið 1997.

Eftirlifandi eiginkona Ingva er Inga Lára Guðmundsdóttir, f. 1938. Dóttir þeirra er Nanna Hlíf, f. 1970. Með fv. eiginkonu, Liv Synnöve Þorsteinsson, f. 1935, d. 2009, eignaðist Ingvi þrjár dætur; Ellen Margréti, f. 1953, Gyðu Mörthu, f. 1956, og Kristínu, f. 1961. Dóttir hans með Önnu Sigríði Ólafsdóttur, f. 1932, d. 1976, er Anna Steinunn, f. 1957. Barnabörnin eru tíu.

Útför Ingva fer fram frá Háteigskirkju miðvikudaginn 10. apríl kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka