Mun ekki sakna stjórnmálanna

Katrín Jakobsdóttir ræddi við blaðamenn í Hörpu.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við blaðamenn í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi kveðst ekki muna sakna stjórnmálanna er hún lætur af embætti forsætisráðherra á mánudaginn.

Í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í Hörpu kvaðst Katrín hafa tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér á ný í þingkosningunum þó nokkru áður en hún tók ákvörðun um að bjóða sig fram til forseta.

Aðspurð segir hún þá ákvörðun hafa verið að gerjast með sér yfir veturinn enda hafi hún byrjað í stjórnmálunum árið 2002.

 „Í 17. sæti á Reykjavíkurlistanum,“ skýtur hún inn og hlær. 

Ég er ekki ómissandi í stjórnmálum

Spurð hvort ekki verði erfitt að segja skilið við forsætisráðuneytið í ljósi þess að kjörtímabilinu sé ekki lokið og enn séu ýmis verkefni fyrir hendi svarar Katrín: 

„Þetta eru gríðarstór verkefni. Engin smá verkefni sem ég og við höfum verið að takast á við undanfarin sex og hálft ár. En þau munu halda áfram að koma. Ég er ekki ómissandi úr íslenskum stjórnmálum, það er nú eitt sem ég er algjörlega með á hreinu.“

Kveðst hún viss um að einhver annar muni sinna því af sóma. Innt eftir því hvort hún hafi gert sér í hugarlund hver taki við ráðherrastól hennar svarar hún neitandi og kveðst ekki hafa átt nein samtöl um það. Nú séu önnur með þann bolta.

Handviss að þetta sé rétt ákvörðun

Þú hlýtur að vera sigurviss ef þú lætur af embætti forsætisráðherra til að bjóða þig fram?

„Já það er bara þannig að auðvitað er það fólkið sem velur forsetann. Fólkið tekur bara rétta ákvörðun, en mér fannst það skipta máli að gefa kost á mér í þetta og gefa fólki kost á að eiga val um mig.

Það er þannig í stjórnmálum að hver á sinn tíma og ég hugsaði hreinlega minn tími er kominn. En að sjálfsögðu er það ekki þannig að maður geti gefið sér neitt í svona baráttu,“ segir Katrín. 

„Ég hlakka bara svolítið til.“

Heldurðu að þú munir ekki sakna stjórnmálanna?

„Nei ég er handviss um það að þetta sé rétt ákvörðun fyrir mig.

Katrín kveðst ekki ómissandi úr íslenskum stjórnmálum.
Katrín kveðst ekki ómissandi úr íslenskum stjórnmálum. Eggert Johannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert