„Ekki túristagos enn sem komið er“

Eldgosið við Sundhnúka hefur staðið yfir frá 16. mars.
Eldgosið við Sundhnúka hefur staðið yfir frá 16. mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að fundað verði með forráðamönnum Bláa lónsins í hádeginu í dag til að taka ákvörðun um starfsemi lónsins.

Það stóð til að opna Bláa lónið á nýjan leik þann 27. mars en lögreglustjórinn sagði ekki alls fyrir löngu að það væri vart forsvaranlegt að opna Bláa lónið á meðan eldgoss væri enn í gangi og vindátt breytilega.

„Við munum hitta forsvarsmenn Bláa lónsins í hádeginu og skoða málin með þeim. Gosið er enn í gangi og það veit enginn hvenær því lýkur,“ segir Úlfar við mbl.is. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Óttar

Úlfar segist ekki hafa orðið var við mikla ásókn ferðamanna að gosstöðvunum. Hann segir til skoðunar varðandi aðgengi fólks að eldstöðvunum en telur að það sé ekki kominn tími á hleypa fólki nálægt gosstöðvunum.

„Þetta er ekki túristagos enn sem komið er,“ segir Úlfar en gosið við Sundhnúkagígaröðina hefur verið í gangi frá 16. mars.

120-150 manns við vinnu í bænum

Úlfar telur að um 120-150 manns séu við vinnu dags daglega í Grindavík. Hann segir að starfsemin, sem er mest bundin við hafnarsvæðið, hafi gengið þokkalega.

„Starfsemin er takmörkuð en menn eru að reyna,“ segir lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Hann segir að undanfarna daga hafi verið gist í um fimm húsum í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert