Gengið hefur verið frá ráðningu Freyju Steingrímsdóttur í starf framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands og hefur hún störf í lok maí.
Framkvæmdastjóri BÍ hefur umsjón með og ber ábyrgð á faglegu starfi á vettvangi félagsins, daglegum rekstri og áætlanagerð, sér um stefnumótun í samráði við stjórn og kemur fram fyrir hönd félagsins eftir því sem við á og gætir hagsmuna þess, að því er segir á vef Blaðamannafélags Íslands.
Stjórn BÍ tók einróma ákvörðun um ráðninguna segir enn fremur.
Þá segir að Freyja sé stjórnmálafræðingur með reynslu af hagsmunabaráttu og starfsemi stéttarfélaga, samskiptum við fjölmiðla, stefnumótun, stjórnsýslu og ýmis konar málefnaherferðum.
Hún hefur undanfarin ár starfað sem samskiptastjóri BSRB, stærstu heildarsamtaka opinbers starfsfólks á Íslandi. Hún vann áður á Alþingi sem aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar og fyrir það sem ráðgjafi hjá Indigo Strategies í Brussel þar sem hún stýrði meðal annars verkefnum fyrir regnhlífarsamtök evrópskra verkalýðshreyfinga og sinnti bæði stefnumótun og hagsmunabaráttu í þágu launafólks í Evrópu. Hún hefur einnig starfað hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópuþinginu, segir í tilkynningu.