Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan 8.30 í húsnæði Umbru við Skuggasund. Miklar vangaveltur eru uppi um mögulegt forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og gert er ráð fyrir því að hún tilkynni um ákvörðun sína í dag.
Margir telja að Katrín muni biðjast lausnar eftir fundinn fyrir sig og ráðuneyti sitt, ákveði hún að fara í framboð. Munu ríkisstjórnarflokkarnir þá reyna að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti annars.
Háværar vangaveltur hafa verið síðustu daga um hvort Katrín myndi lýsa yfir framboði sínu, og hafa ríkisstjórnarflokkarnir setið á rökstólum um framhald stjórnarsamstarfsins.
Þing kemur saman á mánudaginn eftir páskafrí og er talið að liggja þurfi þá ljóst fyrir hvort Katrín láti verða af framboði sínu.