Opna Bláa lónið en enn er ógn af gasmengun

Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/mbl.is/Óttar.

Starfsemi Bláa lónsins mun hefjast að nýju í hádeginu á morgun þrátt fyrir að það sé óbreytt mat lögreglustjórans á Suðurnesjum að ógn geti stafað af hraunrennsli og gasmengun við Svartsengi við núverandi aðstæður. Þetta var niðurstaða eftir fund forráðamanna Bláa lónins og lögreglustjórans í hádeginu í dag.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum segir að hætta sé talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði og að hætta sé vegna gasmengunar.

„Það er ákvörðun Bláa Lónsins að hefja starfsemi að nýju að höfðu samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum á morgun laugardag, kl. 12.   Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöðstaðsett á einni bygginu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbragð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins,“ segir í tilkynningunni.

Vísað er til þess að öryggisfulltrúi á vegum Bláa lónins muni sitja morgunfundi aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar daglega. Þá fór lögreglustjóri þess á leit við forsvarsmenn lónsins að þeir kynntu mótvægisaðgerðir fyrir Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Vinnueftirlitinu og sóttvarnalækni.

Tekið er fram að gestum Bláa Lónsins sem og öðrum en viðbragðsaðilum, jarðvísindamönnum, blaðamönnum og þeim sem vinna inn í Svartsengi er ekki heimilt að ganga að gosinu frá bílastæðum Bláa Lónsins eða frá Grindavíkurvegi.

Innan svæðisins hafa mælst há gildi af SO(brennisteinsdíoxíð), en þessi mengun er talin mjög óholl og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Segir í tilkynningunni að mikilvægt sé að dvelja innandyra við slíkar aðstæður, loka gluggum og slökkva á loftræstingu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert