Katrín Jakobsdóttir mun biðjast lausnar sem forsætisráðherra á sunnudaginn og segja af sér þingmennsku á mánudag þegar Alþingi kemur saman.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í Hörpu.
Eins og greint hefur verið frá þá tilkynnti Katrín á öðrum tímanum í dag að hún myndi gefa kost á sér í embætti forseta Íslands.
Katrín kveðst hafa tekið ákvörðunina í þessari viku og greindi frá henni á ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Þau bara óskuðu mér góðs gengis og í kjölfarið hafði ég samband við forseta lýðveldisins og greindi honum líka frá þessari ákvörðun,“ segir Katrín.
Hún segir að sú reynsla sem hún hefur aflað sér á síðustu tuttugu árum geti nýst þjóðinni, hljóti hún kjör.
„Það skiptir máli að forsetinn skilji gangverk stjórnmála og samfélags sem ég tel að þessi reynsla skili mér. Að hann sé reiðubúinn að gæta hagsmuni okkar á alþjóðavettvangi sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt hlutverk. Svo þarf að horfa á stóru myndina í heiminum. Við erum á flóknum tímum í heiminum þar sem við erum að sjá aukna skautun og sjáum að lýðræðið á víða undir höggi að sækja,“ segir Katrín.
Hún segir að grunngildin sem íslenskt samfélag byggi á eigi undir höggi að sækja víða um heim. Nefnir hún að þau gildi séu lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.
„Ég hef auðvitað alltaf brunnið fyrir því sem ég kalla undirstöðurnar sem eru menntun og menning. það er eitthvað sem ég tel að forsetinn eigi að tala fyrir,“ segir Katrín.