„Ég ætla ekki að taka þátt í þessum leik. Það eru stærri álitamál sem mér finnst ég vera að fást við.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is, inntur eftir því hvort Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra þyrfti að færa sig um ráðuneyti, yrði hún metin vanhæf.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi það í þætti Spursmála í dag að hann hygðist kjósa með vantrauststillögu á hendur Svandísi vegna álits umboðsmanns Alþingis, sem segir að Svandís hafi með ólögmætum hætti sett á tímabundið hvalveiðibann síðasta sumar.
„Það liggur í augum uppi að ef við ætlum að halda stjórnarsamstarfinu áfram, þá ætlum við ekki að lýsa vantrausti á ráðherra,“ segir Bjarni.
Hann segir ríkisstjórnarflokkana þrjá nú þurfa að ræða sín á milli hvort að þeir nái saman um þau mál sem eru brýnust í þjóðfélaginu. Hann segir verðbólgu of háa, orkuskort blasa við og mikilvægt að ná tökum á hælisleitendamálum.
En telur þú enn forsendu fyrir samstarfi á milli þessari flokka?
„Þessi mikla breyting sem er að verða núna gerir kröfu til þess að við setjumst niður. Og það er allt annað en sjálfsagt að við skiptumst bara á lyklum og látum eins og ekkert hafi í skorist.“
Spurður hvenær búast megi við því að ný ríkisstjórn verði kynnt segir Bjarni ekki gott að fullyrða um það enn sem komið er, en segir því fyrr því betra.
En megum við búast við alþingiskosningum á næstunni?
„Ekki nema að það komi í ljós að það sé engin starfhæfur meirihluti á Alþingi um málefnasamstarf sem getur lokið kjörtímabilinu. Mér finnst mjög ólíklegt að það sé staðan – að það sé ekki starfshæfur meirihluti á þinginu.“