Boðað hefur verið til þingflokksfundar hjá Sjálfstæðisflokknum klukkan 15:00 í dag samkvæmt upplýsingum mbl.is. Ekki er vitað nákvæmlega um efni fundarins, en nú stendur yfir ríkisstjórnarfundur og er talið líklegt að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra muni í dag tilkynna um að hún muni sækjast eftir embætti forsta Íslands.
Háværar vangaveltur hafa verið síðustu daga um hvort Katrín myndi lýsa yfir framboði sínu, og hafa ríkisstjórnarflokkarnir setið á rökstólum um framhald stjórnarsamstarfsins. Þing kemur saman á mánudaginn eftir páskafrí og er talið að liggja þurfi þá ljóst fyrir hvort Katrín láti verða af framboði sínu.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag er talið líklegt að Katrín muni biðjast lausnar eftir ríkisstjórnarfundinn fyrir sig og ráðuneyti sitt, ákveði hún að fara í framboð. Munu ríkisstjórnarflokkarnir þá reyna að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti annars.