Tekur Þórdís við af Katrínu?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margt bendir til þess að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram.

Einn möguleikinn er sá að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra taki við embætti forsætisráðherra af Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur nú boðið sig fram til forseta.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, nefnir þetta í samtali við mbl.is.

Nýtt upphaf fyrir ríkisstjórnina

Óvissa ríkir um framtíð ríkisstjórnarinnar í kjölfar framboðsyfirlýsingar Katrínar. 

„Það bendir allt til þess að ríkisstjórnin ætli sér að reyna að láta þetta ganga,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is, spurður hvað hann telji munu gerast í ríkisstjórninni. Það myndi þó felast í einhverri uppstokkun ráðuneyta, sem gæti farið á ýmsa vegu.

„Uppstokkun af þessum toga gæti blásið nýju lífi í stjórnina. En það veltur allt á því að forystumennirnir nái saman um hver leiði stjórnina.“

Hann bendir á að stjórnarmenn þurfi ekki að mynda stjórnarsamstarf til langs tíma heldur.

„Það er ekki nema í mesta lagi rúmt ár eða eitt og hálft ár í viðbót.“

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. mbl.is/Hallur Már

Sigurður Ingi?

Eiríkur telur mögulega ráðherrakapla fjölmarga, í raun miklu fleiri en fólk gerir sér grein fyrir.

„Auðveldast fyrir alla væri að Sigurður Ingi [Jóhannsson innviðaráðherra] tæki við,“ segir hann og bendir á að Framsóknarflokkurinn „liggi á milli“ Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn á þingi og formaðurinn, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, sagðist í samtali við mbl.is í dag vera tilbúinn að leiða ríkisstjórnina ef til þess kæmi.

Bjarni gæti sýnt örlæti

„En pólitísk staða formanns Sjálfstæðisflokksins býður ekki auðveldlega upp á hann sem forsætisráðherra,“ segir Eiríkur.

Aftur á móti gæti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir átt greiðari leið í embættið. Hún er augljós arftaki Bjarna í formennsku flokksins að mati Eiríks.

„Þar bíður varaformaður sem er að verða tilbúinn að taka við flokknum og Bjarni Benediktsson gæti auðvitað sýnt örlæti og boðið hana fram í stólinn.“

Vinstri græn gætu aftur bent á að ríkisstjórnarsamstarfið byggi á því að þau séu í forystu.

„Mér heyrist nú samt á fólki þar að Vinstri grænir séu tilbúnir að láta það eftir,“ segir stjórnmálafræðingurinn. „En þeir eru fleiri, þessir kostir.“

Svandís taki við formennsku

Vinstri græn þurfa nú að velja sér nýjan forystumann, sem setur þau í þá erfiðu stöðu að velja á milli Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að sögn Eiríks.

„Mér finnst blasa við, miðað við umræðuna og stöðu Vinstri grænna, að flokkurinn þurfi að sækja aftur ofan í rót sína, sækja aftur í róttækari vinstri stefnu, og leið flokksins fram á við sé að sækja í sögu sína og uppruna. Og þá er Svandís Svavarsdóttir öflugasti kandídatinn í að rífa flokkinn upp þar.“

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgi flokksins mælist lítið í skoðanakönnunum og á hann það á hættu að falla út af þingi. Flokkurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að fjarlægjast erindi sitt, að sögn Eiríks. Svandís sé augljósa forystukonan sem geti rækt grundvallarerindi flokksins að nýju.

Þá segir hann einnig að þar sem Samfylkingin mælist nú í hæstu hæðum í skoðanakönnunum sé von á breytingum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála.

„En staðan er samt sú að núna fara af stað slíkar flekahreyfingar að allt sem við töldum vera stöðuna í íslenskum stjórnmálum fyrir páska er það ekki endilega eftir páska.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklegast sigurstranglegust

En hvernig mun Katrínu farnast í þessum forsetakosningum?

„Án þess að hafa nokkra mælingu til að styðjast við þá myndi ég fyrirfram halda að af þeim sem fram eru komnir, þá sé hún líklegast sigurstranglegust,“ svarar Eiríkur.

„Á það á algjörlega eftir að reyna og eftir að koma í ljós og það mun taka einhvern tíma fyrir rykið að setjast áður en við sjáum það í mælingum.“

Katrín var á útleið, bara spurning um hvernig

Hann segir að Katrín hafi augljóslega verið á útleið úr íslenskum stjórnmálum. Spurningin var bara hvernig sú útleið yrði.

„Hún hefur yfir mjög langa tíð verið langvinsælasti stjórnmálamaður landsins, hún er einn farsælasti stjórnmálaforingi sem Ísland hefur nokkru sinni alið,“ segir Eiríkur.

Flokkurinn hefur samt sem áður horft framan í mjög dvínandi fylgi og að mati Eiríks er erindi Katrínar í stjórnmálum að þrjóta.

„Nú kemur þetta forsetaframboð upp á þeim tíma sem hún er að hugsa sér til hreyfings,“ segir hann.

„Auðvitað má alltaf líta svo á, að formaður flokks – sem er á fallandi fæti í fylgi – sem fer frá, sé að stökkva frá sökkvandi skipi. Jákvæðari túlkunin er að hann skynji sinn vitjunartíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert