Tilkynnir líklega um framboð í dag

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talið er líklegt að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra muni tilkynna í dag að hún muni sækjast eftir embætti forseta lýðveldisins. Háværar vangaveltur hafa verið síðustu daga um hvort Katrín myndi lýsa yfir framboði sínu, og hafa ríkisstjórnarflokkarnir setið á rökstólum um framhald stjórnarsamstarfsins.

Þing kemur saman á mánudaginn eftir páskafrí og er talið að liggja þurfi þá ljóst fyrir hvort Katrín láti verða af framboði sínu. Þá mun ríkisstjórnin funda í dag samkvæmt hefðbundinni dagskrá. Margir telja að Katrín muni biðjast lausnar eftir þann fund fyrir sig og ráðuneyti sitt, ákveði hún að fara í framboð. Munu ríkisstjórnarflokkarnir þá reyna að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti annars.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að stjórnarsáttmálinn sé og verði áfram í gildi, jafnvel þótt Katrín hverfi á brott. Þá væri erindi ríkisstjórnarinnar enn til staðar.

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, segir við Morgunblaðið í dag að engin lagaleg rök standi til þess að Katrín þurfi að segja af sér embætti forsætisráðherra, jafnvel þótt hún færi í framboð. Hins vegar væri ljóst að Katrín yrði að segja af sér bæði ráðherradómi og þingmennsku næði hún kjöri.

Hafsteinn segir þó þá sviðsmynd vera líklegri að Katrín segi af sér og myndi forseti þá biðja hana um að sitja sem forsætisráðherra í starfsstjórn þar til ný stjórn tæki við. Þá væri spurningin hversu langan tíma það tæki að mynda slíka stjórn.

Ekki er á vísan að róa hvað varðar framhald stjórnarsamstarfsins og hafa ýmsir möguleikar verið nefndir í því samhengi. Talið er þó að það muni lifa áfram um sinn.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert