„Ástandið er grafalvarlegt“

Svana Helen segir að ávinningur af byggingarrannsóknum hér á landi …
Svana Helen segir að ávinningur af byggingarrannsóknum hér á landi sé skýr. Samsett mynd

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, telur það hafa verið vanhugsaða ákvörðun að leggja niður Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. Þörf sé á rannsóknum og ráðgjöf um nýjar byggingaraðferðir. Myglu- og rakavandamál séu að verða enn algengari vegna nýrra aðferða. Segir hún ástandið grafalvarlegt.

Þetta kem­ur fram í aðsendri grein sem Svana Helen birti í Morg­un­blaðinu í dag. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var stofnuð árið 1967 og var hún endanlega lögð niður árið 2022. 

„Ef fólk efast um að enn sé þörf fyrir slíkar rannsóknir er rétt að minna á eftirfarandi: Byggingarefni flæða inn í landið og enginn ber ábyrgð á að rannsaka og prófa gæði þeirra við íslenskar aðstæður eða leiðbeina um rétta notkun. Þörf er á rannsóknum og ráðgjöf um nýjar byggingaraðferðir.

Íslenski útveggurinn með einangrun að innan er á útleið og nú er algengt að einangrun sé sett utan á hús. Þessi breyting þýðir breytta innsetningu glugga. Við þessa breytingu hefur lekavandamálum fjölgað og í kjölfarið verða myglu- og rakavandamál enn algengari,“ skrifar Svana Helen.

Heilu byggingarnar hafa orðið myglu að bráð

Svana Helen segir heilu byggingarnar hafa orðið myglu að bráð.

„Ástandið er grafalvarlegt. Heilu byggingarnar hafa orðið myglu að bráð. Nýlega byggt Orkuveituhúsið er ein þeirra. Þá glíma flest sveitarfélög landsins við mygluvandamál í skólabyggingum sem kosta fjárútlát sem virðast endalaus. Það er mygla víðs vegar í sjúkrahúsum og öðrum opinberum byggingum. Vandamál í eldra húsnæði eiga sér e.t.v. aðrar skýringar en í nýju húsnæði. Staðreyndir tala sínu máli. Á sama tíma veikist fólk og tapar heilsu, jafnvel fyrir lífstíð. Duldu mygluáhrifin sem margir telja að geti með tímanum valdið brjóstakrabbameini hjá konum og valdið langvarandi truflun á taugakerfi fólks eru mikilvægt rannsóknar- og úrlausnarefni.“

Þá segir Svana Helen að þegar Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hafi verið lögð niður hafi kostnaðarástæður legið til grundvallar. Hún efast um að þeir kostnaðarútreikningar standist:

„Ávinningur af byggingarrannsóknum hér á landi er skýr. Hafa stjórnmálamenn sem stóðu að niðurlagningu Rb [Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins] leitt hugann að fórnarkostnaði við niðurlagninguna? Hvers virði er töpuð heilsa og vinnugeta fólks, bæði nú og í framtíðinni, að ekki sé talað um kostnaðinn við að uppræta myglu og endurbyggja húsnæði sem sýkst hefur?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert