Rýming á Seyðisfirði og í Neskaupsstað verður líklega í gildi út helgina. Hríðarveður hefst í nótt og verður fram á mánudag. Þetta segir Erla Guðný Helgudóttir, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is.
Rýmingin tekur gildi klukkan 22 í kvöld og mun Veðurstofan þá lýsa yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Þá tekur einnig óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og Austfjörðum.
„Versta veðrið er á morgun,“ segir Erla og bætir við að óveðrið byrji seint í nótt. Því var ákveðið að rýma fyrr en seinna.
Hún segir að um „lágmarksrýmingu“ sé að ræða en rýmingin nær ekki til margra íbúa.
Veðurstofan vakti stöðuna og að hættumatið verði endurmetið í fyrramálið.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að búið sé í þremur húsum sem þurfi að rýma á Seyðisfirði. Íbúar þeirra hafa þegar verið upplýstir um rýminguna.
Í Neskaupstað þurfa íbúar á Þrastarlundi að rýma sem og eigendur iðnaðarhúsnæðis og hesthúss.
Vegir á Seyðisfirði og í Neskaupstað á rýmdum svæðum eru opnir fyrir umferð.
„Vegna veðurs eru íbúar fjórðungsins þó hvattir til að vera ekki á ferðinni nema nauðsyn krefur,“ segir í tilkynningunni.
Aðgerðastjórn fundar með Veðurstofunni klukkan 9 í fyrramálið.