„Fólkið velur forsetann. Í mínum huga er það alls ekki í verkahring okkar alþingismanna að vera með miklar yfirlýsingar um það hver verði góður forseti og hver ekki.“
Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurður að því í samtali við mbl.is hvað honum finnist um framboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til forseta Íslands og hvort það hafi komið honum á óvart að hún skyldi bjóða sig fram.
Talið berst að stöðunni sem nú er uppi í ríkisstjórninni en aðspurður segist Jóhann Páll meta hana þannig að uppi sé mikil óreiða og óvissa.
„Það er auðvitað þannig samkvæmt stjórnskipan landsins að þegar forsætisráðherra biðst lausnar þá biðst hann lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti, það er að segja fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar.
Landið getur ekki verið forsætisráðherralaust þannig að ef það er ekki skýr samstaða um það meðal meirihlutans á þingi hver eigi að taka við sem forsætisráðherra þá getur það komið til kasta forseta jafnvel að höggva á hnútinn og sjá til þess að það sé starfhæf stjórn í landinu. Það er ekki hægt að láta þetta malla bara í einhverjar vikur og hafa landið forsætisráðherralaust,“ segir Jóhann Páll.
Bætir hann því við að ekki sé hægt að bjóða fólkinu í landinu upp á slíka óvissu og óreiðu.
„Það eru risastórar áskoranir sem blasa við, í heilbrigðismálunum, þegar kemur að samgöngumálum og orkuöflun. Það er fjöldi heimila að sligast undan þungri greiðslubyrði vegna hárra vaxta og vegna þeirrar efnahagsóstjórnar sem hefur ríkt núna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég held að almenningur í landinu geri kröfur um ákveðna stjórnfestu núna til þess að taka á málum.“
Nefnir Jóhann í framhaldinu að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi sagt af sér embætti með örfárra mánaða millibili.
„Þetta eru formenn tveggja, af þremur, stjórnarflokkum og þetta segir auðvitað bara sína sögu um það á hvers konar endastöð þessi ríkisstjórn er komin.
Það væri auðvitað langeðlilegast að leyfa fólkinu í landinu að ákveða framhaldið frekar en að stjórnarmeirihlutinn sé einhvern veginn að funda núna í einhverjum bakherbergjum um það hvernig þau geti setið sem lengst og fastast af ótta við að mæta kjósendum og af ótta við dóm kjósenda.“
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði aðspurð um daginn að flokkurinn tæki því mjög alvarlega að vera skýr valkostur í næstu ríkisstjórn.
Telur þú að tími Samfylkingarinnar sé runninn upp?
„Það er eitt af því sem kjósendur verða að gera upp við sig en við erum alla vega á fullu í undirbúningi. Við erum búin að heimsækja núna 180 fyrirtæki á síðustu mánuðum og halda 25 opna fundi um allt land sem er liður í stefnumótuninni um atvinnu- og samgöngumál. Við kynntum heilbrigðismálaútspil í fyrra, eins konar verklýsingu fyrir ríkisstjórn jafnaðarmanna ef til þess kemur að við fáum umboð til þess að stjórna,“ segir Jóhann og tekur fram í kjölfarið að nú sé verið að vinna að sams konar áætlun um atvinnumál, orkumál og samgöngur.
„Þetta munum við kynna í kringum flokksstjórnarfundinn sem verður haldinn núna um miðjan mánuð. Þannig að við erum tilbúin til verka þegar kallið kemur. Það eru mjög miklir hagsmunir undir núna, hagsmunir fyrir þjóðina að fá nýja ríkisstjórn og það verði tekið á málum af festu.“
En hver verður næsti forsætisráðherra?
„Það er eitthvað sem þau verða að finna út úr sem allra fyrst.“