Miklar bollaleggingar eru nú uppi um hvort núverandi stjórnarsamstarf sé á vetur setjandi þegar leiðtogi þess er horfinn á braut. Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri, telur ólíklegt að svo sé og að margt bendi til þess að samskipti milli verðandi formanns VG og formanns Sjálfstæðisflokksins séu í algjöru lágmarki.
Umræða um þetta spannst með fjörlegum hætti í Spursmálum og fara þau meðal annars hér á eftir en einnig má hlýða á þau í spilaranum hér fyrir neðan.
Þú ert eldri en tvævetur í pólitíkinni. Hvernig lest þú í þessa stöðu [...] hvernig telur þú að þetta fólk geti greitt úr þessu? Var ekki Katrín alltaf stuðpúðinn á milli Svandísar og Guðmundar Inga og svo hinna „raunverulegu íhaldsafla“?
„Jú ég meina, ég til dæmis efast um að Bjarni Ben sé með símanúmerið hjá Guðmundi Inga þannig að ég veit ekki hvernig það samtal ætti að fara fram. Þannig að það séu ákveðnir ómöguleikar í stöðunni og ég skil alveg Katrínu upp að einhverju marki að vilja þetta sérstaklega ef hún hefur verið búin að ákveða að fara úr stjórnmálum að þarna hafi opnast einhver gluggi þarna. Persónulega hefði ég ráðlagt henni að kæla sig í fjögur ár og gera þetta svo.“
Forsetaembættið á náttúrulega ekki að vera einhver neyðarútgangur.
Maður fær það á tilfinninguna,“ skýtur Snorri Másson, fjölmiðlamaður inn í.
Ég held að það sé ákveðinn ómöguleiki að halda VG inni í þessu samtali og ég held að það sé líka bara fyrir VG sem fyrirbæri að byggja sig áfram upp í þessu samstarfi er mjög erfitt. En hvernig þau ætla að leysa það, ef þau ætla að fara að teygja sig til einhverra annarra flokka þá þurfa þau bara að semja upp á nýtt og þá er það hvað, til nokkurra ára, eins árs. Hver á að vilja stíga inn í það án þess að fá mikið fyrir sinn snúð?“ segir Heiða Kristín.
Viðtalið við Heiðu Kristínu, Snorra Másson og Jón Gunnarsson má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan: