„Þetta byrjaði að gerast svona 20 mínútur yfir þrjú þá fór yfirborðið í gígnum að hækka,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, spurð út í hraunfossinn sem rennur nú niður gígbarminn í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni.
„Svo fór bara að flæða yfir en hann brotnaði ekki sjálfur gígurinn,“ segir Elísabet og bætir við að augljóst sé að hraunflæði hafi aukist.
Aðspurð segir hún ekki alveg ljóst hvað valdi þessu aukna hraunflæði en tvennt komi helst til greina.
Hugsanlega hafi kvika verið að laumast undir hraunið og að þær leiðir hafi stíflast. Þá leiti meiri kvika upp á yfir borðið.
„Það gæti líka bara verið að koma meira magn upp, við erum að sjá smá aukningu í óróanum en það er aðeins of snemmt að segja til um það.“
„En þetta er ofboðslega fallegt,“ segir Elísabet og bætir við að aukið hraunflæði sé ekki áhyggjuefni að svo stöddu. Það sé þó nokkuð ljóst að gosinu sé ekki að linna.
Hér fyrir neðan má sjá gosið í beinu streymi: