Bjartsýn á niðurstöðu „innan skamms“

Katrín Jakobsdóttir á leið til fundar á Bessastöðum í dag.
Katrín Jakobsdóttir á leið til fundar á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eyþór

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, segist vera bjartsýn á að stjórnarflokkarnir komi sér saman um arftaka hennar hratt og örugglega. Hún tekur ekki þátt í samtalinu og segist ganga sátt frá stjórnmálum. 

Blaðamaður mbl.is ræddi við Katrínu eftir fund hennar með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum í dag. Hann samþykkti lausnarbeiðni hennar en fól henni að sitja áfram sem ráðherra þar til nýr tekur við. 

Ráðherra þangað til línur skýrast

Hvernig fór fundurinn?

„Hann fór þannig fram að ég afhenti forseta lýðveldisins mína lausnarbeiðni. Við fórum auðvitað yfir þá stöðu sem er uppi, þ.e.a.s. þessir þrír flokkar sem hafa myndað meiri hluta á Alþingi hafa setið við um helgina og rætt möguleika á framhaldi. Ég er bjartsýn á að þeir muni komast að einhverri niðurstöðu innan skamms,“ segir hún og bætir við að í kjölfarið hafi Guðni óskað eftir því að hún myndi gegna embætti forsætisráðherra þangað til línur skýrist.

Katrín og Guðni í dag.
Katrín og Guðni í dag. mbl.is/Eyþór

Óvenjuleg staða

„Ég að sjálfsögðu féllst á það, enda er það bara hefðin.“

Spurð hvort hún sé sátt við þurfa starfa áfram sem ráðherra segist hún hafa séð það fyrir er hún tók ákvörðun um forsetaframboð, sem Katrín viðurkennir að sé óvenjuleg staða. 

„Að sjálfsögðu axlar maður þá ábyrgð. En ég er líka bjartsýn á það að línur muni skýrast mjög hratt.“

Ráðherrar þurfi ekki að vera þingmenn

Katrín segist ekki taka þátt í samtali stjórnarflokkanna um hver skuli taka við. Hún veit þó til þess að formenn stjórnarflokkanna funduðu í gær og í dag. 

Segir af sér þingmennsku á morgun

„Enda hef ég nú sagt af mér sem formaður og mun segja af mér þingmennsku á morgun þegar að þing kemur saman. Þannig að það liggur alveg fyrir að ég er ekki hluti af þessu samtali um framhaldið.“

Katrín mun því hætta í þingmennsku en starfa áfram sem ráðherra. 

Er það ekkert skrýtin staða?

„Nei í sjálfu sér ekki enda þurfa ráðherrar ekki að vera þingmenn. Það er ekkert sem segir til um það að ráðherrar skuli vera þingmenn. Þannið að það breytir engu um það.“

Fulla trú á forystufólkinu 

Nú hafa Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson meðal annars verið orðuð við forsætisráðherraembættið. Treystirðu þeim til þess að taka við af þér?

„Nú er ég bara í þeirri stöðu að hafa ákveðið að segja skilið við stjórnmálin og kynnti ykkur þá ákvörðun á föstudag. Þannig að nú er það bara í annarra manna höndum að greiða úr verkefnunum og ég hef fulla trú á þessu fólki að gera það með sómasamlegum hætti, þannig að hér verði ríkisstjórn og forsætisráðherra innan skamms.“

Ólíklegt að vantrauststilaga verði samþykkt

Flokkur fólksins hefur sagst ætla að leggja fram vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á morgun. 

Spurð hvort að Katrín hafi áhyggjur af því að tillagan verði samþykkt í núverandi ástandi segir Katrín að stóra spurningin sé hvaða niðurstöðu stjórnarflokkarnir komist að. 

„Ef þeir komast að því að halda áfram sínu samstarfi og sameinast um nýjan forsætisráðherra þá myndi ég ekki hafa áhyggjur af vantrauststillögu því í því felst auðvitað skuldbinding að ákveða að starfa saman.“

Þurfi svigrúm

Spurð hvort að ákvörðun forseta fresti hringferð Katrínar til þess að hitta kjósendur segist hún vonast til þess að þessi mál skýrist áður en hún fari á fullt í sinni kosningabaráttu og leggi af stað út á land. 

„Ég hef væntingar um það að það verði bara á allra næstu dögum.“

Hvað finnst þér ásættanlegur tími til þess að leysa málið?

„Ég myndi segja aftur, bara á allra næstu dögum. Ég ætla ekki að nefna nákvæmari tímasetningu en það,“ segir Katrín og bætir við að formenn stjórnarflokkanna þurfi að fá sitt svigrúm til að ráða sínum ráðum. 

Gengurðu sátt frá ríkisstjórnarborðinu?

„Mjög sátt,“ segir Katrín að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert