„Ekki ástæða til þess að snúa öllu á hvolf“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við munum eiga fund í fyrramálið, forseti og þingflokksformenn, og þá munum við ræða dagskrána,“svarar Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, spurður hvort að dagskrá þingfundar morgundagsins verði breytt líkt og þingflokkur Pírata hefur óskað eftir. 

Nú þegar svokölluð starfsstjórn er tekin við af ríkisstjórninni vegna framboðs Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er uppi ákveðin óvissa er kemur að starfsemi þingsins. Meginreglan er að starfsstjórn skuli ekki taka neinar stefnumarkandi ákvarðanir. Hvergi er þó minnst á starfsstjórn í stjórnarskránni. 

Hefur áhrif á starf þingsins

„Auðvitað er það þannig að þeir atburðir, sem nú eru að eiga sér stað, þeir auðvitað munu hafa með einhverjum hætti áhrif á starfsemi þingsins. En engu að síður gerum við ráð fyrir því að halda þingfundi með málum sem þarf að mæla fyrir og taka til afgreiðslu,“ segir Birgir.

„Það er auðvitað þannig að þó að forsætisráðherra hafi beðist lausnar og starfi nú í starfsstjórn, þá er staðan engu að síður sú að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja áfram með bæði réttindum og skyldum. Þannig háttar auðvitað til í þessu tilviki að ráðherrar ríkisstjórnarinnar styðjast við meirihluta í þinginu. Þannig að það er ekki ástæða til þess að snúa öllu á hvolf, þó að þessir atburðir eigi sér stað.“

Skýrist á skömmum tíma

Birgir nefnir einnig að enginn geri ráð fyrir öðru en að ákvörðun um nýjan forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn skýrist á mjög skömmum tíma.

„Meðan að svo er, þá reynum við bara að halda einhverjum dampi í hlutunum svo það leggist ekki bara allt í dvala.“

Píratar hafa einnig kallað eftir því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra komi í óund­ir­bú­inn fyr­ir­spurn­ar­tíma þing­fund­ar­ins til þess að sitja fyr­ir svör­um um stöðu mála. 

Spurður hvort að Katrín verði við þeirri beiðni svarar Birgir að hann vilji ekki útiloka það. Hann muni ræða málið betur við þingflokksformenn í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert