Gígbarmurinn brostinn

Úr vefmyndavél mbl.is við Hagafell laust fyrir klukkan 22.
Úr vefmyndavél mbl.is við Hagafell laust fyrir klukkan 22. mbl.is/Skjáskot

„Það brast þarna gígbarmurinn norðan megin þannig það er byrjað að flæða í norður átt, hraunið.“

Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Spurður hvort hraunflæðið úr gígnum sé áhyggjuefni svarar Böðvar neitandi en bætir við að fylgst sé grannt með stöðunni. 

Streymir frá Grindavíkurbæ

„Það kom svolítil gusa fyrst en svo virðist þetta [hraunflæðið] vera jafnt,“ segir Böðvar og tekur fram að hraunið streymi ekki í átt að Grindavíkurbæ. 

„Þetta er í hina áttina þannig við hefðum kannski meiri áhyggjur af því að það færi yfir Grindavíkurveginn aftur,“ segir Böðvar en bætir við að enn sé óljóst hvert hraunið flæði nákvæmlega. Það eina í stöðunni sé að bíða og sjá. 

Spurður um gasmengun á svæðinu í kringum Bláa lónið segir Böðvar hana ekki mikla þar sem norðanátt valdi því að gasið fari frekar yfir Grindavík. Vindur sé aftur á móti afar hvass og því finni fólk eflaust ekki mikið fyrir menguninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert