Ekki er enn ljóst hver tekur við embætti forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur beðist lausnar frá embætti en henni er gert að sitja áfram þar til arftaki hennar hefur verið fundinn. Þetta kom fram í ávarpi forseta sem lauk rétt í þessu.
Ríkisstjórnarflokkarnir ræða enn hverjar lyktir mála verða. Ljóst er að nýr ráðherra kemur inn fyrir Vinstri græna.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sannfært Guðna um að viðræður gangi vel og senn verði ljóst hver tekur við embætti forsætisráðherra.
Guðni ræddi í símann við formenn stjórnmálaflokka á Alþingi og á í stöðugu sambandi við formenn ríkisstjórnarflokkanna. Þykist hann viss um að senn komi í ljós hverjar lyktirnar verði í þeim viðræðum.
Hver sá sem gegnir þessu embætti þarf að eiga traust samband við þau öll sem sitja á þingi hvort sem þau eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.“
Guðni sér ekkert athugavert við að sitjandi forsætisráðherra fari í forsetaframboð.
Spurður hve langur tími gæti liðið þar til aftaki Katrínar finnst segir Guðni:
„Við skulum sjá til. Ég hef skilið formennina þannig að það sé ríkur vilji til þess að nú á næstu dögum liggi fyrir niðurstaða svo við skulum ganga út frá því.“
„Landið hefur forsætisráðherra og forsætisráðherra situr þar til nýr forsætisráðherra hefur verið skipaður. Við tökum einn dag í einu.“
Guðni sagði þá að taka þyrfti tillit til þeirra aðstæðna sem uppi eru.
„Óneitanlega er það óvenjulegt í þetta sinn að forsætisráðherra sem hefur beðist lausnar hefur ákveðið að vera í framboði í því forsetakjöri sem er framundan. Þá þarf að taka tillit til þess. En við skulum taka einn dag í einu.“
Hefur þú boðað formenn flokkanna á þinn fund?
„Nei, ég ræddi í síma við formenn, eða þingflokksformann hjá Pírötum og annarra stjórnmálaflokka á Alþingi – þá sem ég náði sambandi við – og á í stöðugu samtali við formenn þeirra þriggja flokka sem eiga aðild að þessari ríkisstjórn og fylgist náið með þeirra viðræðum. Þannig að ég þykist viss um að senn komi í ljós hverjar lyktir verða í þeim viðræðum.“
Hvers vegna eru stjórnarandstöðuflokkarnir líka hluti af þessum viðræðum?
„Það er nú einfaldlega vegna þess að hver sá sem gegnir þessu embætti þarf að eiga traust samband við þau öll sem sitja á þingi, hvort sem þau eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, og [það] er skiljanlegt og sjálfsagt að við þessi tímamót að heyra í þeim hljóðið.“
Fréttin hefur verið uppfærð.