„Minn vitjunartími var kominn“

Katrín Jakobsdóttir segir reynslu sína geta nýst vel í forsetaembættinu.
Katrín Jakobsdóttir segir reynslu sína geta nýst vel í forsetaembættinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar var hún meðal annars spurð út í afsögn sína sem forsætisráðherra og hvers vegna hún hafi tekið þá ákvörðun að hætta á þingi.

„Ég var búin að taka þá ákvörðun fyrr í vetur að ég myndi ekki gefa kost á mér í næstu þingkosningum. Ég fór inn í þessa flokkapólitík 2002 þegar ég var kjörin formaður ungliðahreyfingar Vinstri grænna og tók sæti hér á Reykjavíkurlistanum, númer 17 ef ég man rétt, þannig að þetta eru orðin 22 ár og ætli maður finni það ekki bara innra með sér einhvern veginn að manns tími er bara kominn og þá er held ég betra að sætta sig bara við það.“

Allir stjórnmálamenn hafa sinn tíma

Lýsir Katrín pólitíkinni sem miklu ati sem taki yfir lífið.  

„Maður er í þessari baráttu. Ég er náttúrulega búin að njóta einstakra forréttinda, bæði að fá að þjóna sem mennta- og menningarmálaráðherra á sínum tíma eftir hrun og gegna embætti forsætisráðherra í sex og hálft ár.“

Bætir hún því við að verkefnin hafi verið umfangsmikil og ekki endilega þau sem hún bað um. 

„Heimsfaraldur í tvö ár er líklega stærsta verkefnið sem ég hef tekist á við. Jarðeldar á Reykjanesskaga og svo auðvitað margháttaðir aðrir atburðir sem maður hefur þurft að takast á við og auðvitað bara þessi reglubundnu verkefni, kjarasamningar á vinnumarkaði og svo framvegis. 

Þannig að þetta hafa verið stór verkefni og það er bara þannig að allir stjórnmálamenn hafa sinn tíma og ég fann það bara að minn vitjunartími var kominn.“

Hugsaði málið um páskana

Þá segist Katrín ekki persónulega hafa ætlað að gefa forsetaembættinu neinn sérstakan gaum þegar í ljós kom að Guðni Th. Jóhannesson gæfi ekki áframhaldandi kost á sér.

„En auðvitað hefur alls konar gott fólk hvatt mig til dáða, eðlilega, og þá fór þessi hugsun að leita á mig þegar leið á vorið.“

Segir Katrín að það hafi ekki verið fyrr en um páskana sem hún hafi gefið sér tíma til að velta framboðinu fyrir sér og ræða það við fjölskylduna þar sem hún hafi verið önnum kafin í öðrum stórum verkefnum fram eftir ári. 

Ólík embætti

Innt eftir því hvers vegna hún vilji verða forseti og yfirgefa hið valdamikla embætti sem starf forsætisráðherra sé svarar Katrín því til að um sé að ræða annars konar embætti. 

„Fyrir mér hefur þetta embætti alltaf verið mikilvægt, ekki vegna þess að það fari með svo mikið vald en það hefur áhrifavald. Forseti Íslands að mínu viti á að vera að fjalla um stóru línurnar, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum.

Það hefur leitað meira og meira á mig í því embætti sem ég hef gegnt undanfarin ár að það eru stórar átakalínur í heiminum þegar kemur til að mynda að vaxandi skautun í orðræðu í samfélögum, lýðræðið, sem ég tel að sé þetta grunngildi sem íslenskt samfélag byggi á, á víða undir högg að sækja. Sama má segja um réttindi fólks og réttarríkið, þetta eru svona þessi grunngildi sem íslenskt samfélag á að byggja á.“

Segir hún áhrifavald forseta mikið og það sé allt annars konar en embætti forsætisráðherra. 

„Eins og við vitum þá eru ráðherrar og þingmenn meira að gera og græja, eins og það heitir, en forsetinn getur auðvitað haft mikil áhrif. Hann hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna að mínu viti að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi og hann hefur auðvitað því hlutverki að gegna að hér í landinu sé starfhæf ríkisstjórn ef eitthvað kemur upp á í stjórnkerfinu. Ég tel nú að sú reynsla sem ég hef öðlast á þessum árum geti nýst í þetta embætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert