Rýming á Seyðisfirði og í Neskaupstað er óbreytt eftir fund Veðurstofu, Vegagerðar og almannavarna sem lauk fyrr í kvöld. Staðan verður endurmetin í fyrramálið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.
Enn er gert ráð fyrir áframhaldandi úrkomu og skafrenningi fram til morguns. Heldur lægir þá tímabundið en von á öðrum úrkomubakka á morgun. Úrkoma á Seyðisfirði og í Neskaupstað hefur þó ekki verið mikil.
Flestir fjallvegir á Austurlandi eru enn lokaðir. Þá er Fjarðarheiði lokuð en vegurinn um Fagradal er opinn.
Vegir innanbæjar í Neskaupstað og á Seyðisfirði eru opnir og ekki er talin hætta utan rýmdra svæða.
Gert er ráð fyrir að tilkynning um stöðuna berist klukkan 10 í fyrramálið.
„Aðgerðastjórn hvetur ferðalanga sem fyrr til að kanna vel með færð og veður áður en haldið er af stað. Lítið ferðaveður er í fjórðungnum,“ segir í tilkynningunni og þá er minnt á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.