Varðskipið Þór er nú við bryggju inn á Seyðisfirði og verður til taks vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að um sé að ræða hefðbundið viðbragð til varúðar í ljósi aðstæðna.
Rýming og hættustig eru í gildi á nokkrum svæðum vegna snjóflóðahættu, annars vegar á Seyðisfirði og hins vegar í Neskaupstað. Þá er gul veðurviðvörun í gildi á miðhálendinu, Suðaustur-, Austur-, og Norðausturlandi fram að miðnætti.
Skipið var á austurleið í gær og var því ákveðið að sigla því inn til Seyðisfjarðar þangað sem það kom í morgun.
Ásgeir segir að það eigi eftir að koma í ljós hversu lengi varðskipið verði á svæðinu.