Hart deilt innan björgunarsveitarinnar

Hatrammar deilur virðast loga í björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn.
Hatrammar deilur virðast loga í björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Deilur eru komnar upp meðal félagsmanna í björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn.

Núverandi stjórn félagsins var kosin án mótframboðs 22. febrúar. Ljóst er að ekki voru allir á eitt sáttir hvernig skipað var í þá stjórn og var talin ástæða til að ræða þau mál sérstaklega á félagsfundi 14. mars.

Þar reifuðu sumir fundarmenn gagnrýni sína á því hvernig stjórnin stóð að sínu framboði, og að því að stjórnarmenn væru flestir í öðrum útkallshópum, s.s. á sjúkrabíl eða í slökkviliði. Þetta kemur fram í fundargerð sem birt er á Facebook síðu sveitarinnar. 

Meint pólitísk yfirtaka nýs formanns

Stjórnarmönnum hafi sárnað það illa umtal sem átt hafi sér stað frá því að ný stjórn sveitarinnar var skipuð. Umtalið væri meðal annars á þann veg að formaður sveitarinnar, Þorsteinn Ægir Egilsson, hefði stefnt að pólitískri yfirtöku á sveitinni.

Þorsteinn Ægir og fleiri stjórnarmenn eru á L-lista, Framtíðarlistanum, í sveitastjórnarmálum. 

Umræðan í samfélaginu um skipun stjórnar og deilur þar að lútandi voru ekki tæmdar í fundargerð.

mbl.is hafði samband við formanninn sem vildi ekki tjá sig um málið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert