Leggur aftur fram vantrauststillögu á Svandísi

Inga Sæland hyggst leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi
Inga Sæland hyggst leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi Samsett mynd/Eyþór/

Vantrauststillaga á hendur Svandísi Svavarsdóttur, sem enn er matvælaráðherra, hefur verið lögð fyrir Alþingi. Þetta staðfestir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

„Vantrauststillagan hefur verið skráð inn. Spurningin er bara hversu hratt Svandís hleypur úr ráðuneytinu til að losna við hana,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

„En stóra spurningin er hvort ég muni elta hana á milli ráðuneyta.“

Líklega á dagskrá á morgun eða miðvikudag

Vantrauststillagan byggir á því að hvalveiðibann sem Svandís setti á síðasta sumar hafi ekki átt sér skýra stoð í lögum samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis, Skúla Magnússonar. 

Aðspurð segir Inga að vantrauststillagan verði líklega sett á dagskrá á morgun eða miðvikudag þó að sjálfsögðu sé það forseta Alþingis að ákveða formlega dagskrá. 

Eins og fram hefur komið hefur tillagan þegar verið lögð fram áður en í því tilfelli var hún dregin til baka í kjölfar veikinda Svandísar sem fór tímabundið af þingi vegna þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert