Aðgengi að þessu gosi öðruvísi

Aðeins gýs úr einum gíg í eldgosinu á Reykjanesskaga núna.
Aðeins gýs úr einum gíg í eldgosinu á Reykjanesskaga núna. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

„Þetta er öðruvísi en hin gosin hafa verið, þau hafa verið fjarri byggð og fólki stafað minni hætta af þeim. Þetta gos hefur haft meiri afleiðingar hérna heima sem hefur gert það að verkum að ferðaþjónustufyrirtækin hafa ekki verið jafn ginnkeypt fyrir því að gera þetta gos að einhvers konar ferðamannaviðburði,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um aðgengi ferðamanna að eldgosinu á Reykjanesskaga.

Umræður hafa spunnist í Facebook-hópnum Baklandi ferðaþjónustunnar og víðar um aðgengi erlendra ferðamanna og fleiri áhugasamra að yfirstandandi gosi og þeirri spurningu meðal annars varpað fram hvort útilokað sé að nota brot af því fjármagni sem fer í varnargarða á gossvæðinu til að útbúa bílastæði og leyfa fólki að ganga upp á einhvern hólanna í nágrenni gossins og virða það fyrir sér.

Minni þörf fyrir að hlaupa

Jóhannes segir augljóst að ekki þyki við hæfi að selja aðgang að hamförum sem eyðileggi og ógni heimilum fólks. „Svo má líka nefna að aðgengi hefur verið svolítið öðruvísi að þessu gosi þannig að því aðgengi hefur verið hamlað vegna vegalokana og þeir sem voru „gosþyrstir“ voru búnir að ganga upp að hinum gosunum og þess vegna kannski minni þörf fyrir að hlaupa á eftir þessu,“ segir Jóhannes enn fremur.

Hann kveður áhuga ferðaþjónustufyrirtækjanna nú takmarkaðri en áður á að aka með fólk að gosinu og segir aðspurður að gosið nú dragi ferðamenn hvort tveggja að og fæli þá frá. „Gosið hefur fengið töluverða umfjöllun erlendis sem getur bæði verið gott og slæmt. Við höfum líka séð mismunandi skammtíma- og langtímaáhrif. Þessi ferðamannagos sem svo voru kölluð voru mjög þægileg fyrir fólk, lítil og hægt að fara og skoða þau,“ segir Jóhannes.

Hann segir umfjöllun um þau gos hafa verið frekar jákvæða sem hafi hjálpað til þegar ferðaþjónustan stóð upp úr heimsfaraldrinum. Umfjöllun um gosin í nágrenni Grindavíkur hafi hins vegar verið mjög erfið og ýmsar kviksögur farið í gang um truflun á flugumferð og fleira. Erlendir ferðamenn sem ekki þekkja til á Íslandi hafi sumir gleypt við því. Umfjöllunin nú hafi því haft frekar neikvæð áhrif en hitt.

Aðsókn gosþyrstra ekki vandamál

„Við erum í raun bara að velta því fyrir okkur hvað hægt er að gera,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, þegar mbl.is innir hann eftir afstöðu lögreglunnar til aðgengismála að gosinu.

Hann kveður aðsókn gosþyrstra ekki vandamál í sjálfu sér. Að Bláa lóninu opnuðu sé vegalengdin tiltölulega stutt frá því að gosgígnum. „Eitthvað er um að fólk sé að labba í áttina að gosinu en það er alla vega ekki stórt vandamál hvað varðar þetta aðgengi,“ segir lögreglustjóri.

Verkefni lögreglu sé að stýra ferðamönnum til og frá gosinu og viðbragðsaðilar ráði ekki við það verkefni eins og staðan er í dag, hvorki lögregla né björgunarsveitir, enda í sjálfu sér ekki verkefni björgunarsveita að halda uppi slíku eftirliti.

Ekki hefðbundin verkefni

Aðspurður kveður Úlfar umferð að gosinu trufla hefðbundin verkefni. „Ég er auðvitað með lögreglumenn bundna í þessu verkefni og þetta er auðvitað verkefni sem við getum sagt að teljist ekki til hefðbundinna verkefna lögreglumanna, að vera með varðstöðu við eldgos,“ segir Úlfar.

Embætti hans njóti þó aðstoðar annarra lögregluembætta auk góð stuðnings embættis ríkislögreglustjóra. „Við fáum þá aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurlandi sem eru þau embætti sem liggja næst okkur,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri að lokum, „við erum bara að skoða þetta og reyna að horfa aðeins inn í framtíðina.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, ræddi við mbl.is um …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, ræddi við mbl.is um aðgengi ferðamanna og gosþyrstra að yfirstandandi eldgosi. Myndin hér að ofan er af eldra gosi. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert