Hermann Nökkvi Gunnarsson
Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi matvælaráðherra og verðandi innviðaráðherra, segir margt spennandi bíða hennar í nýju ráðuneyti. Kveðst hún munu einsetja sér að setja samgöngusáttmálan í forgang.
Svandís segist ekki hafa skipt um ráðherrastól til þess að sætta sjálfstæðismenn, heldur hafi hún beðið um ráðherrastólinn.
Ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar eru mættir á Bessastaði. Ríkisráðsfundur hófst þar nú upp úr klukkan 19.
Ertu ánægð með stólaskiptin?
„Já, þetta er spennandi. Þetta eru öðruvísi málefni og margt mjög spennandi ekki síst það sem lýtur að skipulagsmálum og húsnæðismálum og auðvitað málefnum sveitarfélaganna sem eru mér mjög kær frá fornu fari,“ segir Svandís.
„Samgöngur eru stórt umhverfismál og umhverfismálin eru alltumlykjandi og ég hef einsett mér að setja samgöngusáttmálan í forgang og klára hann,“ segir hún leggur áherslu á orkuskipti í samgöngum.
Svandís kveðst vera bjartsýn um áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarinnar.
Ertu að fara í annað ráðuneyti til þess að sætta sjálfstæðismenn?
„Nei, ég sóttist eftir þessu ráðuneyti.“